140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[13:58]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er að standa vörð um íslenskan hlutabréfamarkað og stuðla að bættri virkni hans og tryggja að lagaumgjörð verðbréfaviðskipta sé skýr og auki traust þátttakenda á hlutabréfamarkaði.

Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin hafa vakið athygli ráðuneytisins á því að gildandi reglur um yfirtökur séu ekki nægilega skýrar og geti boðið upp á túlkun sem fari gegn markmiðum yfirtökureglna sem miði að dreifðu eignarhaldi og minnihlutavernd. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið lögð mikil áhersla á að yfirtökureglur séu skýrar og ótvíræðar, sérstaklega í ljósi biturrar reynslu af sniðgöngu þeirra í Kauphöllinni fyrir hrun.

Samkvæmt núgildandi lögum geta aðilar verið undanþegnir tilboðsskyldu undir tvennum kringumstæðum, annars vegar vegna þess að þeir fóru með yfir 30% atkvæðisréttar þegar tilboðsskyldumörk voru lækkuð úr 40% niður í 30% 1. apríl 2009, og hins vegar vegna þess að þeir voru yfir tilboðsskyldum mörkum þegar verðbréf hlutaðeigandi félags voru í fyrsta sinn tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Það er hins vegar ekki nægjanlega skýrt hvort og hvenær tilboðsskyldan verður virk fyrir aðila sem falla undir undanþáguna. Þannig mætti túlka lögin með þeim hætti að aðilar geti alltaf keypt sig upp í þau mörk sem þeir voru í þann 1. apríl 2009 og jafnframt að þeir sem hafi yfirráð í félagi þegar það er skráð á skipulegan tilboðsmarkað lúti engum takmörkunum, svo framarlega sem þeir fara ekki niður fyrir 30% atkvæðisréttar, þ.e. ef menn eru með yfir 30% þegar félag er fyrst skráð á markað geta þeir í sjálfu sér bætt við sig ótakmarkað upp í 100% svo fremi sem þeir fara aldrei niður fyrir 30% því ef þeir gera það eru þeir aftur háðir 30% þakinu.

Það er álit ráðuneytisins að slíkt fari augljóslega gegn markmiðum yfirtökureglna sem miða að dreifðu eignarhaldi og minnihlutavernd og nauðsynlegt sé að skýra þær reglur sem gilda um skráningar og stöðu þeirra sem undanþegnir eru tilboðsskyldu. Því er lagt til í frumvarpi þessu að í lögunum komi skýrt fram að aðilar sem eru undanþegnir tilboðsskyldu sem myndast við 30% atkvæðisrétt verði læstir við þau mörk eða við lægri mörk ef þeir selja frá sér hluti eða hlutur þeirra þynnist út af öðrum orsökum. Það er mjög mikilvægt að þessar reglur séu mönnum ljósar nú þegar verðbréfamarkaðurinn tekur aftur við sér. Fyrir dyrum er fyrsta skráning á hlutabréfamarkaði frá hruni en ekki þarf að fjölyrða um áhrif þeirra hremminga sem dundu yfir haustið 2008 á virkni hlutabréfamarkaðar á Íslandi.

Það er alveg ljóst að búast má við að skráningum á markaði fjölgi á næstu mánuðum og missirum. Það er sérstakt markmið okkar að svo verði. Það er mjög mikilvægt að stuðla að djúpum og virkum mörkuðum og uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á ný á Íslandi en forsenda þess eru skýrar reglur, aukið traust almennings og annarra fjárfesta á verðbréfamarkaði og að félög sjái sér hag í því að skrá sig á markað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.