140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er verið að staga í eitt gatið á flíkinni af illri nauðsyn. En eins og ég benti á er mjög auðvelt að fara fram hjá þessu og ekki nokkur leið að sjá það. Það er meira að segja spurning hvort það varði við lög þegar komnar eru langar keðjur, svo maður tali ekki um þegar í keðjunni eru allt óháðir aðilar. Mér sýnist að ekkert í þessu frumvarpi eða hlutafélagalögunum yfirleitt banni það. Ég held að það sé einmitt vandi sérstaks saksóknara, þessi veila í hlutabréfaforminu sjálfu. Nú eru komin þrjú ár síðan ég flutti fyrst frumvarp mitt um gegnsæ hlutafélög þar sem ég benti á veiluna og benti á lausnir og lagði meira að segja seinna fram frumvarp um gegnsæ hlutafélög þar sem ég leysti þetta mál að mínu mati. Það hefur enginn sýnt mér fram á að til sé önnur lausn og menn hafa heldur ekki sýnt mér fram á að þessi lausn muni ekki duga. Samt sem áður hefur ekkert verið gert.

Nú eru menn byrjaðir að selja til almennings aftur hlutafélög eins og þau þar sem töpuðust gífurlegir fjármunir, herra forseti. 50–60 þúsund heimili á landinu — ég segi heimili frekar en einstaklingar vegna þess að yfirleitt á aðeins einn aðili á heimilinu hlutabréf, það er sjaldgæft að tveir aðilar eigi hlutabréf — venjuleg heimili, ég er ekki að tala um stóru hluthafana, töpuðu að meðaltali 1,5 millj. kr. Samtals 80 milljarðar fóru með hvelli. Ég hefði viljað sjá menn laga það sem þarna gerðist áður en þeir færu að bjóða út nýtt hlutafé. Nú vona ég að útboð Haga gangi vel og menn nái markmiðum sínum en menn verða að fara að laga þetta þannig að hinn almenni hluthafi sem leggur fram sparifé sitt sé tryggður.

Um daginn sendi maður mér tölvupóst og sagðist vera með 10 millj. kr. í bankahólfi. Ég ætla ekkert að segja hvar hann býr eða fara nánar í það en hann er með 10 millj. í bankahólfi af því að hann treystir ekki bönkunum. Af hverju treystir hann þeim ekki? Af því að hann er búinn að tapa öllu sínu. Hann átti nefnilega töluvert miklar eignir, bæði í hlutabréfum, skuldabréfum o.s.frv. Það er allt farið nema þær 10 millj. kr. sem hann tók út og setti í bankahólf. Hann þorir ekki að ráðstafa þessu fé og vildi spyrja mig ráða um hvað hann ætti að gera við þetta. Ég var bara í standandi vandræðum, herra forseti. Við erum með ríkisstjórn sem er virkilega andsnúin sparifé, ræðst á það aftur og aftur, hefur hækkað skattinn á fjármagnstekjum, sem hétu einu sinni vextir, upp í 20% í neikvæðri ávöxtun og svo eru bætur Tryggingastofnunar skertar o.s.frv. Ég gat ekki ráðlagt þessum manni neitt. Ég sagði við hann: Kauptu spariskírteini, það er betra. Þá færðu að minnsta kosti sömu ríkisábyrgð og á seðlunum þínum og færð að minnsta kosti vexti eða einhverjar verðbætur. En þá sagði hann: Nei, þá þarf ég að binda peningana en ég verð að nota þá til að lifa á. Auk þess er upphæðin kannski ekki nægilega stór til að binda hana alla í einu eða tveimur skuldabréfum.

Þetta er nú staðan sem hinn svokallaði fjármagnseigandi, hinn ljóti þjóðflokkur, er kominn í. Það vill svo til að það er einmitt fjármagnseigandinn sem stendur undir öllum lánveitingum í þjóðfélaginu. Ég þekki þá stöðu og hef sagt það hér áður, þegar engin lán var að hafa neins staðar. Kannski erum við að sigla hratt í þá stöðu. En ég skora á hæstv. ráðherra að taka sér tak og gera við allar sokkabuxurnar, líka það sem búið er að klippa neðan af.