140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:21]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er að venju lögð til breyting á 5. gr. laganna sem fjallar um gjaldskylda aðila, álagningarstofna og árlegt fastagjald. Í 1. gr. laganna er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar samkvæmt 5. gr. laganna skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins eins og nánar er kveðið á um í lögunum.

Um ákvörðun álagningar eftirlitsgjaldsins er fjallað í 2. gr. laganna en þar segir:

Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila samkvæmt 5. gr.

Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.

Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað vegna ársins 2011, sem lögð var til grundvallar breytingu á lögunum með lögum nr. 150/2010, var eftirlitsgjald ársins 2011 áætlað 1.619 millj. kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir að innheimt eftirlitsgjald verði 1.582 millj. kr. Frávik frá upphaflegri áætlun skýrist m.a. af 50 millj. kr. óinnheimtanlegu eftirlitsgjaldi vegna fjármálafyrirtækja sem farið hafa í þrot.

Í þessu frumvarpi er eftirlitsgjald ársins 2012 áætlað 2.002 millj. kr. í samræmi við skýrslu Fjármálaeftirlitsins og nemur hækkun milli ára frá upphaflegri áætlun yfirstandandi árs 383 millj. kr. eða um 24%.

Frá því að Fjármálaeftirlitið tók til starfa hefur verið leitast við að tryggja starfsemi þess í samræmi við kjarnareglur alþjóðlegu bankaeftirlitsnefndarinnar um virkt fjármálaeftirlit. Til að svo megi verða er óhjákvæmilegt að stofnuninni sé tryggt nægilegt rekstrarfé, fullnægjandi lagaheimildir til eftirlits, virk ákvæði til framfylgni ákvarðana og sjálfstæði gagnvart öðrum hagsmunum en þeim sem felast í sjálfu eftirlitinu. Markmið frumvarpsins er að fjárhagsleg staða Fjármálaeftirlitsins verði áfram tryggð þannig að hún samræmist þessum kjarnareglum.

Þessa stefnu má enn fremur sjá í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 16. ágúst sl. þar sem því er heitið að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi tekjur til að tryggja að stofnunin geti innt skyldur sínar af hendi með árangursríkum hætti.

Verulegs misræmis gætir í fjárheimildum stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2011 annars vegar og því sem lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kveða á um hins vegar, samanber lög nr. 150/2010, um breyting á lögunum, þ.e. fjárlögin sem gilda um greiðslu kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins sýna aðra niðurstöðutölu en fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Af því tilefni og jafnframt til að fá skorið úr um samspil þeirra sérlaga sem gilda um fjármögnun rekstrar Fjármálaeftirlitsins og ákvæða fjárlaga leitaði ráðuneytið eftir áliti embættis ríkislögmanns og lögmæti þess að halda eftir á viðskiptareikningi hluta þeirra tekna sem löggjafinn hafði sérgreint stofnuninni.

Í áliti ríkislögmanns, sem fylgir sem fylgiskjal með frumvarpinu, kemur m.a. fram sú meginniðurstaða að um fjármögnun rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins fari samkvæmt þeim sérlögum sem um fjármögnun stofnunarinnar gilda, þ.e. lögum nr. 99/1999. Eigi að breyta fjárheimildum stofnunarinnar skuli slíkt gert með breytingum á þeim lögum en ekki fjárlögum.

Í 3. umr. um fjárlagafrumvarpið var nokkuð fjallað um fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins. Meðal annars var ýjað að því að aukin framlög til eftirlitsins væru á kostnað framlaga til brýnna velferðarmála á borð við heilbrigðismál. Það er mjög mikilvægt að taka af öll tvímæli um að svo er ekki því að eftirlitsgjald sem lagt er á eftirlitsskylda aðila og standa á undir rekstrarkostnaði er allt annars eðlis en þau framlög úr ríkissjóði sem sjúkrahús og aðrir sambærilegir aðilar njóta. Framlög til heilbrigðisþjónustu eru fjármögnuð með skatttekjum ríkissjóðs sem renna beint til samneyslunnar. Öðru máli gegnir um þann sérstaka skatt sem aðeins er lagður á eftirlitsskylda aðila og stendur undir rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Það er ekki almennur skattur sem standa á undir samneyslunni heldur stendur hann aðeins undir kostnaði við eftirlit með þeim sem skattinn greiða. Þeir eftirlitsskyldu aðilar eru að sjálfsögðu eins og allir lögaðilar skattskyldir og greiða skatta í sameiginlega sjóði af rekstrartekjum sínum með sama hætti og önnur fyrirtæki. Það er því ekki hægt að gefa sér það að unnt væri að nota hluta af álögðu eftirlitsgjaldi til að standa undir einhverju öðru en rekstri Fjármálaeftirlitsins, slík framsetning er mjög villandi.

Ég rakti við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins ástæðu þess að það frumvarp sem um ræðir kemur svo seint fram og þá sérstaklega þann mikla tíma sem það tók að afgreiða kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins og ætla ég ekki að endurtaka það hér.

Það er óhjákvæmilegt að beina sjónum þingmanna að því sérstaka kerfi sem er um rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins og sérstöðu laga nr. 99/1999, um tekjuöflun FME, gagnvart öðrum sérlögum sem kveða á um sértekjur einstakra ríkisstofnana. Samkvæmt þessum lögum er gjaldtöku eftirlitsskylda aðila ætlað að standa undir rekstri FME að öllu leyti og samkvæmt lögunum ber efnahags- og viðskiptaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp um að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds ef skýrsla Fjármálaeftirlitsins gefur tilefni til. Svigrúm ráðherra til endurmats á þeim tillögum er því nokkuð takmarkað. Ríkissjóður verður ekki krafinn um neikvæðan mismun tekna og gjalda og hann nýtur ekki heldur afgangs í rekstri stofnunarinnar. Ef rekstrarafgangur er fyrirséður ber að taka tillit til hans við ákvörðun eftirlitsgjalds næsta árs en við ákvörðun eftirlitsgjalds er markmiðið að mismunur á tekjum og gjöldum verði hvað minnstur á hverju ári og eftirlitsskyldir aðilar standi beint undir þeim mismun eða njóti hans. Þetta á að gera með því að við álagningu fyrir komandi ár hverju sinni verði tekið tillit til útkomu yfirstandandi árs. Stofnuninni er heimilt að mynda varasjóð sem samsvarar rekstrarafgangi umfram áætlun. Neikvæður mismunur yrði að sama skapi lagður á eftirlitsskylda aðila sem viðbótarskattlagning eða lagt á fyrir honum við álagningu næsta árs.

Undanfarin ár hefur kostnaður við FME vaxið og árlega verið gerðar breytingar á lögum nr. 99/1999. Öflugt fjármálaeftirlit er mikil nauðsyn, ekki síst á þeim tímum sem við lifum nú. Fyrirséð er að draga mun verulega úr kostnaði á næstu árum þegar uppbyggingarstarfi Fjármálaeftirlitsins að loknu efnahagshruni verður lokið og sérstakar rannsóknir sem ráðist hefur verið í í kjölfar bankahrunsins verða á enda komnar.

Vík ég nú, virðulegi forseti, að sjálfu frumvarpinu. Meginefni þess fjallar um hækkun á hundraðshlutum eftirlitsgjalds og fastagjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila.

Í skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins sem birt er sem fylgiskjal I með frumvarpinu er að finna sundurliðun einstakra kostnaðarliða. Helstu kostnaðarliðir í rekstri Fjármálaeftirlitsins samkvæmt áætlun fyrir árið 2012 eru laun og launatengd gjöld, um 1.419 millj. kr. samanber 1.240 millj. kr. samkvæmt upphaflegri áætlun fyrir yfirstandandi ár. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af fjölgun starfsmanna til að sinna nýjum lögboðnum verkefnum svo sem eftirliti með slitastjórnum og skilanefndum og uppbyggingu á umbótaverkefnum. Samkvæmt áætlun eftirlitsins er gert ráð fyrir að heildarfjöldi starfsmanna í árslok 2012 verði 143, þar af tæplega 20 í rannsóknum vegna hrunsins og 26 stöðugildi alls vegna tímabundinna verkefni. Þessi verkefni eru annars vegar í tengslum við rannsóknir og aðdraganda á orsökum hrunsins og hins vegar vegna uppbyggingar verkefna sem munu auka skilvirkni stofnunarinnar þegar til lengri tíma er litið. Þá er gert ráð fyrir tímabundnu viðbótarhúsnæði en leigusamningur gefur Fjármálaeftirlitinu rétt til að skila húsnæði til baka að tveimur árum liðnum.

Vegna umræðu í ríkisstjórn og ráðherranefnd um ríkisfjármál við vinnu fjárlagatillagna til 2. umr. óskaði ég eftir því að Fjármálaeftirlitið endurskoðaði áætlun sína fyrir árið 2012. Eftirlitið hefur brugðist vel við þeirri ósk og endurskoðað áætlunina og verður hún kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þegar frumvarpið verður þar til umfjöllunar. Dró Fjármálaeftirlitið allnokkuð úr áætlunum sínum og náði með því að lækka fyrirhugaða áætlun á næsta ári um 115 millj. kr. og er niðurstöðutala fjárlaga, sem samþykkt voru í gær, í samræmi við þá endurskoðuðu rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins.

Í 2. gr. laganna er kveðið á um lögbundið samráð við samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs. Álit samráðsnefndarinnar fylgir frumvarpinu og athyglisvert og rétt að benda á að eftirlitsskyldir aðilar taka í áliti sínu undir það að áætlanir eftirlitsins séu metnaðarfullar og byggi á raunverulegum forsendum. Meðal fylgiskjala með frumvarpinu er jafnframt úttekt erlends sérfræðings á getu Fjármálaeftirlitsins og úrbótaþörf á eftirlitsgetu þess en hún hefur verið lög til grundvallar við mat á uppbyggingarþörf í Fjármálaeftirlitinu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu er lagt til að frumvarpið gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.