140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer í ræðu minni á eftir betur yfir frumvarpið í heild sinni en ætla að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði.

Ég held að allir séu sammála um mikilvægi þess að hafa hér sjálfstætt eftirlit. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af sjálfstæði stofnunarinnar þar sem hún virðist hafa látið það viðgangast að hér væru fjármálafyrirtæki í umsjón og vörslu hæstv. fjármálaráðherra sem brutu 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki í annars vegar 23 mánuði og hins vegar 29 mánuði — ég er hér að ræða um SpKef og Byr — og það að þau fyrirtæki komist upp með þetta með þessum hætti, hvort ekki sé hætta á því að það gefi fordæmi fyrir aðra aðila að fara ekki að lögum um fjármálafyrirtæki og að öðrum lögum sem um starfsemina gildir.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra að öðru. Það eru ýmsir kostnaðarliðir sem vekja athygli manns þegar maður fer að skoða þessa hluti. Einn liðurinn er laun til stjórnarmanna sem eru ekki í föstu starfi heldur sinna mjög mikilvægu hlutverki sem stjórnarformenn og stjórnarmenn. Þar hefur komið fram að fyrrverandi ráðherra hækkaði greiðslu til stjórnarformanns um 175%, úr 220 þús. á mánuði í 600 þús. á mánuði. Núna eru stjórnarlaunin fyrir stjórnarformann 600 þús. á mánuði, 200 þús. fyrir aðalmann og 200 þús. fyrir varamann. Því vil ég spyrja tveggja spurninga, annars vegar hvort hæstv. ráðherra viti af hverju fyrrverandi ráðherra hækkaði launin svona mikið og hvort það séu einhverjar sambærilegar greiðslur hjá opinberum fyrirtækjum þar sem stjórnir eru.