140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Miðað við þá umræðu sem var um fjárveitingar til umræddrar stofnunar í fjárlögum, í 1., 2. og 3. umr., þá átti ég von á að menn kæmu hingað upp og ræddu þetta dálítið ítarlega, því að hér er frumvarpið sem veldur þeim upphæðum.

Fjármálaeftirlitinu var falið ansi mikið hlutverk í neyðarlögunum, t.d. að manna skilanefndir og að taka yfir fyrirtæki o.s.frv. Kannski var það best til þess fallið af þeim stofnunum sem eru hér innan lands. Eins og kom fram áðan hefur Fjármálaeftirlitið vaxið og óx töluvert fyrir hrun meðan verðbréfamarkaður, hlutabréfamarkaðurinn og allir fjármálamarkaðir uxu miklu hraðar rétt fyrir hrun, það hafði kannski ekki við. En eftir hrun hefði maður átt von á að eitthvað gerðist. Á árinu 2009 fóru menn að rannsaka mál og kanna með öllum þeim heimildum sem Fjármálaeftirlitinu er veitt, ásamt með þeim sérstöku heimildum sem sérstök rannsóknarnefnd Alþingis fékk. Þá voru menn í færum um að rannsaka mjög víða í kerfinu það sem gerðist í hruninu. Það var ótalmargt sem gerðist.

Síðan kemur árið 2010 og þá hélt maður að eitthvað væri verið að vinna úr þessu. Sérstakur saksóknari var settur á laggirnar og hann fær tilkynningar frá Fjármálaeftirlitinu um það sem miður hefur hugsanlega farið. Svo kemur árið 2011, sem nú er að líða, það er þriðja heila árið frá hruni. Því hefði maður átt von á að nú væru menn búnir að kanna þetta því að málin fara að fyrnast og allt það. Maður hefði haldið að skýrari mynd færi að komast á hvað gerðist í hruninu. Svo á árinu 2012, á fjórða heila árinu, yrði komin ró yfir allt heila dæmið.

Fjármálamarkaðurinn hefur minnkað mjög mikið eins og ég gat um áðan. Um 2 þús. starfsmenn hafa hætt, erlend viðskipti hafa dregist saman og eru orðin sáralítil, og ekki eru innlánsreikningarnir í Bretlandi og Hollandi virkir lengur. Það er sem sagt miklu minna sem Fjármálaeftirlitið þarf að hafa eftirlit með. Í slíkri stöðu gera menn samt ráð fyrir mjög mikilli aukningu og miklu meiri en maður sér annars staðar.

Það er réttlætt með því að það eru eftirlitsskyld fyrirtæki sem greiði þetta, þ.e. viðskiptabankarnir sem eru ekki neitt sérstaklega vinsælir og enginn hefur mikla samúð með þeim í sjálfu sér og kannski þarf þess ekki, eru reyndar aðrir bankar en voru fyrir hrun. Sparisjóðir sem eru nánast horfnir, vátryggingafélög og alls konar fjármálafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki.

En svo eru líka lífeyrissjóðir. Maður hefði talið að nú þegar komið er að fjórða ári eftir hrun færi um að hægjast, þá færi að dragast saman. Ónei, þá á allt að vaxa enn frekar, stækka húsnæði og fara fyrst í gang þegar allir frestir eru að líða hjá.

Ég held að menn þurfi að horfa mjög gagnrýnum augum á þetta. Eins og ég gat um í andsvari vil ég helst ekki heyra að það að ég skuli horfa gagnrýnið á þetta þýði að ég sé á móti eftirliti og vilji helst að enginn sé ákærður eða neitt slíkt. Það er svo fjarri því. Ég reikna bara með að það sé liðið, menn séu komnir yfir þann hjalla og séu núna komnir á lygnan sjó eða ættu að vera það ef starfsemin hefur gengið hingað til, enda er ljóst að menn geta ekki haldið áfram með ný mál eftir að fyrningarfrestur er liðinn, sem er yfirleitt fjögur ár. Við lok ársins 2012 eru menn orðnir of seinir til að grípa í málin.

Athygli vekur hvað sérstakur saksóknari hefur skilað litlu af sér af ákærum. Hann segir með réttu að það sé vegna þess hve málin eru gífurlega umfangsmikil en ég held að það sé líka vegna þess að hann fær ekki upplýsingar frá útlöndum, sérstaklega Lúxemborg, nema með herkjum og miklum töfum og eftirgangsmunum. Það er kannski ákveðin skýring. En svo held ég líka að skýringin sé sú að veila er í hlutabréfaforminu eins og ég nefndi fyrr í dag og hef margoft nefnt. Sú veila gerir það að verkum að menn geta gert alls konar aðgerðir sem eru í rauninni ekki andstæðar lögum og meira að segja ársreikningar virðast ekki vera réttir. Ég hef enga trú á því að ársreikningar hafi verið réttir þrem mánuðum fyrir hrun sem sýndu mjög góða stöðu allra fjármálafyrirtækjanna. Það var ekkert þar sem benti til þess að eitthvað væri yfirvofandi og að allar eignir væru að hverfa. Ég held því að hæstv. ráðherra sem flytur þetta frumvarp þurfi að fá nefndina til að breyta því ákvæði sem hann sagði að hann væri svo vanmáttugur gegn. Ég held að hv. nefnd þurfi að skoða það.

Það er eitt sem ég ætlaði að ræða, herra forseti. Er það að verða tíska á hinu háa Alþingi að nefndarmenn sitji ekki 1. umr. um mál, ekki einu sinni formaður nefndarinnar? Ég sá honum rétt bregða fyrir áðan og svo hvarf hann. Er það að verða þannig að umræða hafi í raun og veru ekkert gildi? Vegna þess að ef nefndarmenn sitja ekki og hlusta á umræðuna, þá situr hún ekki eftir, hún fer ekki inn í nefndina. Nú sit ég ekki í umræddri nefnd þannig að ég get ekki komið skilaboðum mínum áfram um það. En ég kvartaði undan slíku við atvinnumálanefnd. Í umræðu um Byggðastofnun var enginn úr nefndinni mættur utan einn sem tók til máls. Hann varð þá að segja nefndinni frá því sjálfur hvað hann sagði. Það var umræðan um það mál. Ég lagði reyndar til að Byggðastofnun yrði lögð niður en ég veit ekki hvort nefndin fær upplýsingar um það nema af þeirri sérstöku ástæðu að hæstv. forseti er formaður nefndarinnar. Kannski fær hann að vita það eða getur komið því til nefndarinnar að ég hafi lagt til að Byggðastofnun yrði lögð niður.

Ég held ég hafi ekki fleiri orð um það mál sem við ræðum núna, um Fjármálaeftirlitið. Mér þykir það skjóta skökku við að kostnaðurinn skuli aukast svona á sama tíma og markaðurinn dregst mjög hratt saman og sérstaklega sá hluti sem var kannski erfiðast að hafa eftirlit með, þ.e. erlend viðskipti. Það er nánast horfið. Nú er kominn svo langur tími að menn ættu að vera búnir að vinna úr þeim málum sem þurfti að skoða.

Ég vil að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar — reyndar er enginn í salnum, herra forseti, til að bera það nefndinni. Kannski getur forseti komið því einhvern veginn til leiðar að nefndin fái að vita að ég óski eftir að hún vinni þetta mjög nákvæmlega og sérstaklega hvort ekki verði hægt að lækka kostnaðinn.