140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun á þskj. 447. Markmið frumvarpsins er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Vinna við frumvarp þetta hefur staðið yfir í nokkurn tíma í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl 2011 samþykkti ríkisstjórnin að ráðist yrði í 16 verkefni í samvinnu við heimamenn um eflingu byggðar og atvinnusköpunar í landshlutanum. Fólst eitt verkefnið í því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið tók að sér að kanna möguleikana og koma á kerfi jöfnunar flutningskostnaðar. Í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir má sjá afrakstur þeirrar vinnu.

Við gerð frumvarpsins var höfð til hliðsjónar þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 sem Alþingi samþykkti 15. apríl 2011. Með þingsályktuninni fól Alþingi ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Meginmarkmið áætlunarinnar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla meðal annars samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum. Í ályktuninni segir meðal annars að til að stuðla að bættum búsetuskilyrðum verði lögð áhersla á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun á vörum bæði fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Í skýrslu nefndar um möguleg viðbrögð stjórnvalda vegna hækkandi olíuverðs, sem skipuð var af fjármálaráðherra, var lagt til að komið yrði á flutningsjöfnun til að jafna tiltekinn hluta flutningskostnaðar á svæðum fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Þá kom Fjórðungssamband Vestfirðinga í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða á framfæri ítarlegu minnisblaði, dags. 7. júlí 2011, til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um mikilvægi þess að stjórnvöld taki upp jöfnun flutningskostnaðar þar sem flutningskostnaður skekki sérstaklega samkeppnisstöðu svæða á borð við Vestfirði.

Umræða um jöfnun flutningskostnaðar á Íslandi er langt í frá ný af nálinni og hefur staðið áratugum saman án nokkurrar sýnilegrar niðurstöðu. Á seinni hluta árs 2002 var skipaður vinnuhópur af þáverandi samgönguráðherra til að gera yfirlit um flutningskostnað fyrirtækja og hvernig hann hefði þróast undanfarin ár og skilaði sá vinnuhópur ráðherra skýrslu um flutningskostnað í janúar 2003. Í þeirri skýrslu var fitjað upp á flutningsjöfnunarstyrkjum en ekki varð af því að gripið yrði til aðgerða.

Þá hefur Byggðastofnun í tvígang gefið út skýrslur um greiningu og könnun á flutningskostnaði sem gefnar voru út á árunum 2004 og 2005. Í báðum skýrslunum var sú tillaga lögð fram að stjórnvöld tækju upp kerfi flutningsaðstoðar á borð við það sem er við lýði í Svíþjóð þar sem það var niðurstaða Byggðastofnunar að flutningskostnaður framleiðslufyrirtækja væri verulegur útgjaldaliður í rekstri þeirra og miklu hærri en hjá sambærilegum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu enda færi nær allur almennur inn- og útflutningur um hafnir á höfuðborgarsvæðinu.

Í júlí 2008 kom enn út skýrsla starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar sem hafði að geyma tillögur starfshóps sem viðskiptaráðherra skipaði í desember 2007 til að meta þau áhrif sem kynnu að verða þegar flutningsjöfnuður olíuvara yrði lagður niður, með hvaða hætti bæri að mæta slíku og jafna flutningskostnað almennt.

Sem fyrr segir hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið undanfarna mánuði unnið að tillögum um jöfnun flutningskostnaðar og byggt þær í sjálfu sér á mörgum þeim skýrslum og greiningum sem fram hafa farið áður. Stuðst hefur verið við ályktanir sem af þeim skýrslum hafa verið dregnar en að auki hefur verið aflað upplýsinga um kerfi af þessum toga í Noregi sem hafa verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA og í Svíþjóð sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita styrki til framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði. Styrkirnir greiðast úr ríkissjóði og flokkast sem ríkisstyrkir samkvæmt reglum EES-samningsins.

Þá er í frumvarpinu fjallað um hvaða vörur teljist styrkhæfar. Til styrksvæða teljast þau svæði þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti en samkvæmt núgildandi byggðakorti sem gildir á Íslandi mega stjórnvöld veita byggðastyrki til verkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.

Framleiðendur geta verið hvort sem er einstaklingar með lögheimili á styrksvæði eða lögaðilar með heimilisfesti á styrksvæði. Ekki er sett neitt lágmark á styrkfjárhæð og er það gert til að tryggja að einyrkjar í framleiðsluiðnaði eigi jafnan möguleika á styrkveitingum eins og stór framleiðslufyrirtæki.

Veittir eru styrkir vegna flutnings frá styrksvæði ef framleiðslan er annaðhvort fullunnin vara eða hálfunnin vara og til styrksvæðis ef um er að ræða hrávöru eða hálfunna vöru sem er nauðsynleg til þess að endanleg framleiðsla geti átt sér stað á svæðinu. Þá er skilyrði að ávallt sé valin hagkvæmasta flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða lofti. Í því sambandi skal meta saman lengd ferðar og kostnað enda getur í einhverjum tilfellum verið ódýrara að flytja lengri en styttri leið. Er þetta í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.

Við mat á því hvenær framleiðandi fer að greiða hærri flutningskostnað var stuðst við greiningu sem Elías Jónatansson iðnverkfræðingur vann fyrir samgönguráðuneytið í maí 2007, svo og greiningu sem hann lagði fyrir fund ríkisstjórnarinnar í apríl sl., svo og sérstakar greiningar sem ráðuneytið gerði í ágúst til september á þessu ári. Í ljósi ofangreindra útreikninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir að styrkir vegna vöruflutninga til allra skilgreindra styrksvæða verði 10%, ef lengd ferðar er 245 kílómetrar, en ef flutt er til eða frá tilteknum svæðum í Norðvesturkjördæmi verður styrkurinn 20% ef flutningslengd fer yfir 390 kílómetra.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett sé þak á styrki og nemur það 200 þús. evrum á þriggja ára tímabili eða um það bil 33 millj. kr. á skráðu gengi frá 31. ágúst 2011. Inn í þá fjárhæð skal einnig reikna aðra styrki sem framleiðandi hefur fengið frá opinberum aðilum. Með því að setja þetta hámark á styrki fellur umrædd ríkisaðstoð undir reglur um minniháttaraðstoð (de minimis) ESA og er þar af leiðandi ekki tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunarinnar. Fyrir liggur að ef fjárhæð hámarksaðstoðar væri hærri yrði að leita formlega eftir samþykki ESA áður en styrkjakerfinu yrði hrint í framkvæmd og það mundi þá tefja að hægt væri að koma þessu kerfi á.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2012 og gildi til ársloka 2013 og falli þannig gildistími kerfisins saman við gildistíma núgildandi byggðakorts Eftirlitsstofnunar EFTA. Fyrir árslok 2013 er þá lagt til að fram fari endurskoðun á lögunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði.

Samkvæmt kostnaðarmati við frumvarpið er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um nálægt 230 millj. kr. á næsta ári vegna styrkveitinganna. Geta má þess að í fjárlögum sem samþykkt voru í gær er gert ráð fyrir 200 millj. kr. til þessa verkefnis. Erfitt er að fara nær raunverulegum kostnaði enda er það ákveðinni óvissu undirorpið hversu margir sækja um styrki eða hvernig umgjörðin nákvæmlega verður.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að ég tel mjög skynsamlegt að við förum af stað með þessum hætti og horfum fyrst og fremst á framleiðsluþáttinn og þjónustuþátturinn kemur auðvitað til álita í framhaldinu. Það kemur líka til álita hvort styrkfjárhæðirnar eigi að vera hærri, en ég held að þegar farið er af stað í svona verkefni sé eðlilegt að vekja ekki óraunhæfar væntingar og ekki heldur kannski að teygja kerfið of langt heldur þróa það síðan áfram stig af stigi. Aðalatriðið er að hér er loksins lagt af stað í þá vegferð að jafna samkeppnisaðstæður að þessu leyti og ég bind miklar vonir við að frumvarpið geti átt hraða leið í gegnum þingið. Það er að vísu seint fram komið og hefur tafist meðal annars vegna anna í fjármálaráðuneytinu og afgreiðslu kostnaðarmata, en ég held samt að það væri mikilsvert ef það gæti farið eins hratt í gegnum þingið og þingið treystir sér til. Ef næðist að gera frumvarpið að lögum fyrir jólahlé er ljóst að fjármunir eru á fjárlögum næsta árs til að unnt sé að byrja starfrækslu kerfisins strax í upphafi nýs árs en það er auðvitað í höndum þingsins hversu hratt það treystir sér til að afgreiða málið.

Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.