140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt ályktað hjá hv. þingmanni að þetta tekur ekki til fólksflutninga eða slíkra þátta. Þetta tekur ekki heldur til þjónustuviðskipta þannig að smásöluaðilar á landsbyggðinni til dæmis munu ekki geta fengið styrk til að tryggja niðurgreiðslu á fraktkostnaði.

Í þessari umferð og eins og frumvarpið er nú úr garði gert er það einungis miðað við framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni og jafnt vegna frakt- og flutningskostnaðar vegna fullunninnar framleiðsluvöru sem og flutningskostnað á hráefni.

Það er síðan sjálfstæð ákvörðun löggjafans hvort hann vilji víkka þetta út og taka fleiri þætti undir. Kostnaðarmatið er miðað við þennan eina þátt. Ég tel, eins og ég rakti í framsöguræðu, eðlilegt að marka þessu frekar hóflega umgerð í byrjun og sjá hvernig gengur en það kunna að vera ýmis réttlætisrök fyrir því að víkka þetta út frekar á síðari stigum.