140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni úr ræðu minni er það sem ég kom inn á í lokin og varðar sjóflutninga. Ég hef þá trú og skoðun og hef styrkst í henni að sjóflutningar séu mjög nauðsynlegir til að halda uppi samkeppni í flutningum á Íslandi. En þegar við segjum samkeppni verðum við að hafa það í huga að sömu fyrirtækin og voru með sjóflutninga, þ.e. Eimskip og Samskip á sínum tíma, reka líka flutningakerfi á landi, þ.e. Flytjanda og Landflutninga, ef ég man rétt hvað þau heita. Ef til vill þess vegna lögðust sjóflutningar af. Menn voru með marga bíla og notuðu í raun og veru tóma legginn, sem stundum var kallaður svo, því að þegar búið var að flytja vöru út á land óku menn bílana suður og vildu þá taka annað inn.

Ég spyr bara, virðulegi forseti: Er eðlilegt að það þurfi að flytja 40 feta gám af frosnum fiski landleiðina til höfuðborgarsvæðisins í útflutningshöfn? Nei, það er ekki þörf á því að mínu mati. Það er heldur ekki þörf á því að flytja 100, 200 eða 300 gáma af kóka kóla í gleri — eins og við vitum er kóka kóla í gleri búið til á Akureyri en Íslendingar drekka það vítt og breitt um landið — endilega landflutning í flutningabílum. Margt af þessari vöru eða bara besta dæmið, sem maður tók stundum, er að flytja átti stál, sem kom frá útlöndum til að byggja höfn á Akureyri, landleiðina norður.

Ég er ekki að tala fyrir Skipaútgerð ríkisins, alls ekki, en ég hika ekki við að halda því fram og það var meginniðurstaða þeirrar nefndar sem ég skipaði og skilaði af sér góðri skýrslu að með útboði væri þetta hægt og það sem hefur styrkt mig í að það sé hægt er að leiguverð skipa hefur lækkað mjög mikið (Forseti hringir.) upp á síðkastið. Þess vegna held ég að við eigum að prófa þetta líka.