140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel mjög mikilvægt að þetta mál sé komið á dagskrá með þeim hætti að flutt hefur verið frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hefur það að markmiði að reyna að draga úr flutningskostnaði út á landsbyggðina.

Ég vil þó vara við því að kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Við þekkjum það af fyrri reynslu að svona mál geta líka dagað hér uppi á Alþingi, ekki vegna þess að ekki hafi verið áhugi á því að ljúka þeim með einhverjum hætti heldur vegna þess að skapast hafa um þau deilur. Málið sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi hér áðan var einmitt dæmi um þetta. Þá hafði verið búið að tryggja í fjárlögum fyrir það ár, 2007, 150 millj. kr. en það var ekki bara vegna efnahagshrunsins sem illa fór með þá upphæð heldur líka vegna þess að málið lenti í ákveðinni togstreitu, menn voru ekki sammála um útfærslurnar og þá varð niðurstaðan, eins og stundum gerist, að ekkert varð úr neinu. Þó að við höfum kannski einhver mismunandi sjónarmið í þessum efnum, um útfærslur og annað þess háttar, megum við ekki fyrir nokkurn mun láta það henda okkur að málið dagi hér uppi, lendi í einhverri útideyfu og ekki verði neitt úr neinu.

Við erum að tala hér um mjög alvarlegt mál, grafalvarlegt mál. Og hvert er þá vandamálið? Það vandamál sem við erum að takast á við í þessu frumvarpi felst í því að framleiðslufyrirtæki víða úti um landið búa við skakka og erfiða samkeppnisstöðu vegna hins háa flutningskostnaðar sem hefur valdið því að þau verða ekki lengur samkeppnisfær, sem hefur þær afleiðingar að þau annaðhvort leggja algjörlega upp laupana eða flytja starfsemi sína annað, jafnvel úr landi. Við erum að takast á við þetta vandamál, þetta þjóðfélagslega vandamál, þetta byggðalega vandamál, og við megum ekki skorast undan því. Núna þegar málið er komið á dagskrá með þessum hætti verðum við að takast á við það.

Hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum? Jú, gríðarleg hagræðing hefur orðið, getum við sagt, í flutningastarfsemi til landsins í heild. Við getum sagt að þjóðin í heild hafi hagnast á því. Í stað þess að skipin fari í hverja höfnina á fætur annarri, bæði með varning og til þess að sækja fisk og útflutningsvörur, kjósa skipafélögin nú í hagræðingarskyni að sigla til einnar hafnar með innflutningsvörurnar — auðvitað eru fleiri útflutningshafnir, t.d. Vestmannaeyjar, Akureyri og Reyðarfjörður, en í meginatriðum er þetta svona. Þau hafa verið að fækka viðkomustöðum og síðan safnað vörunum til útflutnings og séð til þess að þær eru síðan fluttar, þegar þær hafa verið fluttar hingað inn, út um landið. Þannig hefur kostnaðarmismunurinn, sem áður lenti á skipafélögunum í formi þess að þau voru að sigla í kringum landið, oltið yfir á herðar fyrirtækjanna og fólksins úti á landi.

Það er í raun og veru þessi herkostnaður sem hefur verið borinn af íbúum landsbyggðarinnar af þeirri hagræðingu sem við getum sagt að þjóðin sem heild hafi verið að njóta og ekki síst það fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Með frumvarpinu er verið að segja: Við skulum nota hluta af þeirri hagræðingu sem við höfum verið að ná í heild sinni, sem hefur skapað svigrúm fyrir ríkissjóð, til þess að greiða niður flutningskostnað úti á landi með þeirri aðferðafræði sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þetta held ég að sé afar mikilvægt að menn hafi í huga. Það er svo auðvelt að stilla málinu þannig upp að nú sé blessað fólkið á höfuðborgarsvæðinu enn einu sinni að taka á sig byrðarnar fyrir pakkið á landsbyggðinni sem sé sífellt vælandi og kveinandi. Það er ekki þannig, sannleikurinn er sá sem ég var að lýsa hér áðan, það er raunverulega það umhverfi sem við erum að tala út frá. Gamla kerfið, t.d. frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og þessum stóru útflutningsfyrirtækjum, var þannig að flutningskostnaðurinn var jafn fyrir alla útflytjendur hvar á landinu sem þeir voru, menn jöfnuðu þessu í gegnum þessi stóru útflutningssamtök, síðan var því hætt og nú er flutningskostnaðurinn eins og allir vita. Hann hefur farið stighækkandi og við þekkjum mjög erfið dæmi.

Ég tek dæmi af Rækjuverksmiðjunni Kampi á Ísafirði, mjög góður vinnustaður, mjög mikilvægur í sínu samfélagi. Þar er staðan sú að flutningskostnaðurinn af bæði aðföngum og framleiðsluvöru er yfir 100 millj. kr. á ári. Það fyrirtæki og forsvarsmenn þess höfðu íhugað það mjög alvarlega að flytja starfsemi fyrirtækisins frá Ísafirði með afleiðingum sem hefðu verið gríðarlega kostnaðarsamar, ekki bara fyrir samfélagið fyrir vestan heldur fyrir íslenskt samfélag í heild sinni.

Auðvitað höfum við sagt sem svo í gegnum tíðina að við viljum leysa þessi mál að sem mestu leyti með bættum vegasamgöngum og það hefur auðvitað tekist. Þegar stóru áfangarnir náðust, með vegtengingunum um Ísafjarðardjúp yfir Arnkötludal og þverun Mjóafjarðar o.s.frv., leiddi það til, að mig minnir, 10% lækkunar á flutningskostnaði. Þetta skilaði með öðrum orðum árangri. En þá kom blessuð ríkisstjórnin til með alla sína skatta sem varð þess valdandi að flutningskostnaðurinn hækkaði aftur, samfara því að olíuverð hafði hækkað erlendis. En blessuð ríkisstjórnin sá til þess að ávinningurinn sem menn höfðu fengið var horfinn inn í hít ríkissjóðs áður en haninn hafði galað þrisvar. (Gripið fram í.)

Það er rétt, svona mál hafa komið fram áður. Ég vil í því sambandi vekja athygli á tillögu nefndar Elíasar Jónatanssonar, núverandi bæjarstjóra í Bolungarvík, sem lagði fram ákveðnar hugmyndir í þessum efnum og hv. þm. Kristján L. Möller gerði að umtalsefni. Því miður var ekki hægt að hrinda því máli í framkvæmd af ástæðum sem ég rakti áðan. Í raun og veru getum við sagt að uppi séu tvær leiðir sem gætu komið til greina þegar við erum að útfæra þetta eins og við erum að reyna að hugsa þetta. Annars vegar sú leið sem farin er í þessu frumvarpi, þ.e. að teikna upp einhvers konar byggðakort, skilgreina svæði með rökstuðningi eins og gert er í þessu frumvarpi og skipta þá landinu niður í svæði 1 og svæði 2 eins og gert er hér með tilteknum rökstuðningi. Það er alveg gild leið.

Hins vegar er líka til önnur leið sem hefur verið rædd og mér er kunnugt um að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða ræddi á sínum tíma og var til umfjöllunar þegar ríkisstjórnin heimsótti Vestfirði fyrr á þessu ári. Það er kerfi sem byggist á svokallaðri nálgun í samræmi við raunvegalengdir, þ.e. í svipuðum dúr og hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Kristján L. Möller ræddu hér áðan, þ.e. að hafa eitthvert tiltekið gólf þar sem engin niðurgreiðsla færi fram og fyrir ofan það væri þessi niðurgreiðsla í samræmi við raunvegalengdir.

Þetta eru bara tvær leiðir sem menn geta svo sem borið saman. Þær hafa hins vegar sameiginlegan tilgang sem er sá að lækka flutningskostnað þar sem hann er hæstur. Ég vil ítreka það og vara mjög við því að menn fari að minnsta kosti að búa sér til óþarfaágreining og óþarfadeilur og óþarfaflækjustig í því að deila um þessar útfærslur. Aðalatriðið er að reyna að komast að niðurstöðu þannig að við missum þetta ekki enn og aftur út úr höndunum á okkur vegna innbyrðis togstreitu.

Kjarni málsins er sá að við verðum í þessu sambandi að nýta peningana sem best. Peningarnir eru ekkert ótakmörkuð auðlind eins og við vitum. Þegar við höfum til ráðstöfunar 200 millj. kr., sem er sú upphæð sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum, sem við vorum að samþykkja í gær, er það ramminn og þá þurfum við að gæta þess að þeir peningar séu nýttir á þeim svæðum þar sem flutningskostnaður er sárastur. Það er enginn vandi að halda því fram að einhverjar byggðir nálægt höfuðborgarsvæðinu verðskuldi að fá peninga til að lækka flutningskostnað, það er enginn vandi að halda miklar ræður um það. Það er enginn vandi að halda hér miklar ræður um ósanngirnina í því að vera að styðja við þær byggðir sem fjærst eru. En það eru óvart þær byggðir samt sem áður sem búa við sárasta flutningskostnaðinn og mestu byrðarnar af þessu og það er það sem við erum að reyna að nálgast.

Ég ætla bara að taka dæmi úr skýrslu eða minnisblaði sem Shiran Þórisson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, útbjó, og ég hygg að ríkisstjórnin hafi fengið í hendur, þar sem þetta kemur ákaflega vel fram.

Lögaðilar á Vestfjörðum greiða núna milli 6 til 7 hundruð millj. kr. í flutningskostnað. Það er varlega áætluð tala vegna þess að ekki er að öllu leyti verið að taka tillit til flutningskostnaðar eins og bent er á í skýrslunni. Það sem kemur fram í skýrslunni er enn fremur það að það sé mat flutningsaðilanna sem kaupa þessa þjónustu að til þess að vega upp óhagræðið þyrfti flutningskostnaðurinn að lækka um 30–40%. Það þýðir að bara á Vestfjörðum þyrfti flutningskostnaðurinn af þessum ástæðum að lækka um 160–220 millj. kr.

Ég legg þessar tölur inn í þessa umræðu til að undirstrika alvöru málsins, undirstrika hversu þýðingarmikið það er að við tökumst á við þetta vandamál. Í þessari skýrslu, sem Shiran Þórisson vann, er vitnað í úttekt sem Elías Jónatansson vann og er að mínu mati mjög lýsandi fyrir þetta mál. Þar segir að það þurfi auðvitað að taka hlutina sérstökum tökum þar sem ástandið er afbrigðilegt, og það vill bara þannig til að það er á Vestfjörðum.

Í þessum útreikningnum er birt tafla þar sem sýnt er fram á að flutningskostnaður fer línulega vaxandi með hverjum kílómetranum sem líður frá höfuðborgarsvæðinu. Það byrjar kannski í rúmum 10 þús. kr. á tonn þegar menn eru komnir í 50–70 km akstursfjarlægð frá Reykjavík og síðan hækkar þetta með hverjum kílómetranum sem líður. En svo gerist það skrýtna: Flutningskostnaður til Patreksfjarðar og flutningskostnaður til Ísafjarðar fylgir ekki þeirri línulegu þróun sem ég var að nefna varðandi flutningskostnað til annarra hluta landsins, hann er miklu meiri, hann hoppar upp. Það verður ekki skýrt með vegalengdinni, það hljóta menn að þurfa að skýra með einhverjum öðrum ástæðum. Kannski samkeppnislegum ástæðum, mér er það ekki ljóst, en alla vega er þetta bara raunveruleikinn að fyrirtækin þarna borga miklu meira. Dæmi er tekið í skýrslunni, verð fyrir flutning á 40 feta gámaeiningu er til Ísafjarðar 240 þús. kr., 180 þús. kr. til Akureyrar og 120 þús. kr. á Sauðárkrók. Ég geri ráð fyrir því að þeim sem þurfa að borga á Akureyri og Sauðárkróki þyki alveg nóg um. Við sjáum hins vegar að þetta er mun verra á Vestfjörðum og þá hljóta menn, ef þeir ætla að takast á við það að lækka flutningskostnaðinn þar sem hann er sárastur og erfiðastur, einfaldlega að horfast í augu við þessa staðreynd.

Ég hygg að það byggðakort og sú nálgun sem ríkisstjórnin beitir í þessum efnum sé meðal annars sprottin af þeirri staðreynd sem ég rakti, þ.e. að sú staðreynd er uppi að flutningskostnaðurinn á þetta tiltekna svæði, Vestfirði, er hærri en inn á önnur svæði. Þá þurfa menn einhvern veginn að takast á við það og það er ein leiðin sem ríkisstjórnin leggur hér til.

Til viðbótar við þetta hlýt ég að vekja athygli á sérstöðu eins landsvæðis og það eru sunnanverðir Vestfirðir sem búa við hraksmánarlegustu vegasamgöngur sem þekkjast á Íslandi, hvorki meira né minna — og nú er ég ekki að taka of mikið upp í mig, það ætla ég að fullyrða. Þess vegna er þetta enn þá sárast á þessu svæði og þó að verið sé að beita þessari jöfnun með þessum hætti, innan eins tiltekins svæðis með 20% endurgreiðslu, er öruggt að það mætir engan veginn að fullu því samkeppnislega óhagræði sem byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum búa við.

Það er líka ýmislegt undarlegt sem hefur verið að gerast í þróuninni á síðustu árum og kannski síðustu missirum í flutningskostnaði til og frá höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðina. Á fundi sem við þingmenn Norðvesturkjördæmis sátum með sveitarstjórnarmönnum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða komu fram þær upplýsingar frá Atvinnuþróunarfélaginu að flutningskostnaður hefði þróast á mismunandi veg eftir vöruflokkum. Það er til dæmis þannig að flutningskostnaður á ferskum óunnum fiski hefur hækkað miklum mun minna en annar flutningskostnaður, t.d. á unnum afurðum og á þjónustu og þjónustuvarningi fyrir almenning. Hvað veldur því? Ég veit það ekki fyrir víst. Kannski er það vegna þess að gríðarleg samkeppni er ríkjandi í flutningi á óunnum fiski, við vitum að margir eru að slást um þetta hráefni. En það breytir ekki því að þetta er staðreyndin, og hverjar eru þá afleiðingarnar? Afleiðingarnar virðast vera þær að þessi þróun á flutningskostnaði stýrir hráefninu frá fiskvinnslustöðvum á þeim svæðum sem við þetta búa og hingað suður, á Suðurnesin og víðar, og stuðlar fremur að því að lækka vinnslustigið í fiskvinnslunni úti á landsbyggðinni.

Það er mjög alvarlegt mál líka vegna þess að rannsóknir sýna okkur að meiri fylgni er milli umfangs fiskvinnslu og íbúaþróunar en kvótaþróunar og íbúaþróunar. Þennan hlut hafa menn einhvern veginn ekki nægilega mikið rætt hér á Alþingi en þetta er staðreynd málsins. Það eru ýmsir svona hlutir sem gera það að verkum að við hljótum að takast á við þetta þjóðfélagslega mein sem ég vil kalla, flutningskostnaðinn úti á landsbyggðinni, (Forseti hringir.) og ég tel að þetta sé góð viðleitni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég fagna frumkvæðinu, fagna því að þetta sé komið á dagskrá með þessum hætti. Við getum deilt um útfærslurnar en í guðanna bænum lendum ekki í því að þessu máli verði strandað vegna innbyrðis deilna um útfærslu.