140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum aga í ríkisfjármálum og er þar af mörgu að taka. Agaleysi leiðir til kostnaðar og spillingar eins og við sjáum. Kostnaðurinn felst í því að fjárlög standast ekki, það þarf að leysa þau með fjáraukalögum og síðan ríkisreikningi og alltaf bætist við.

Samkvæmt 49. gr. fjárreiðulaga bera forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila ábyrgð á fjárhagsráðstöfunum og að staðið sé við fjárlög. Því er ekki framfylgt og ég bíð eftir því að rætt sé í ríkisstjórn hvort viðkomandi forstöðumaður eigi ekki að leita sér að nýrri vinnu sem hann ræður við fyrst hann getur ekki farið að fjárlögum.

Við höfum rætt ítarlega og endurtekið um Sparisjóð Keflavíkur, Byr, Icesave, en allt eru það hlutir sem eru óljósir, óklárir og benda hreinlega til agaleysis, að þeir séu ekki færðir sem raunverulegar skuldbindingar ríkissjóðs. Opinberar framkvæmdir eru alveg sér á báti, þær fara iðulega langt umfram það sem áætlanir gera ráð fyrir.

Ég bað um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um allar þær skuldbindingar sem enn er ekki búið að færa. Ég nefni t.d. skuldbindingu vegna B-deildar LSR. Þar vantar 300 eða 400 milljarða sem ekki er búið að færa. Ég skora því á hæstv. ráðherra að taka sér tak í því að koma á aga í ríkisfjármálunum, að lögð sé áhersla á að farið sé að lögum í allri stjórnsýslunni — fjárlög eru lög — og að menn auki sannarlega aga (Forseti hringir.) í ríkisfjármálum.