140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að ræða fjárlagagerðina og fjársýslu ríkissjóðs alla saman því að vitanlega er verið að höndla með gríðarlega fjármuni og mikilvægt að hafa yfirsýn og vera með sem besta vissu um hvernig fjármunum er varið og hvernig þeirra er aflað.

Það er rétt sem fram hefur komið að það er mjög sérkennilegt og hefur verið það um árabil að vera með fjárlög sem þarf svo að lappa upp á með fjáraukalögum þegar hafist er handa við gerð nýrra fjárlaga. Það er nokkuð sem við þurfum að breyta, það er hefð, ef ég má orða það þannig, sem við þurfum öll að sameinast um, allir þingmenn, að breyta.

Þingflokkur framsóknarmanna lagði fram tillögu til þingsályktunar í haust um stöðugleika í efnahagsmálum og þar er töluvert mikið gert úr mikilvægi þess að skoða ríkisfjármálin. Þar leggjum við mikla áherslu á að áætlanir séu unnar til lengri tíma, að við séum með fimm ára áætlanir og svo tíu ára áætlanir þar sem horft er á bæði útgjöld og tekjur. Við tölum um að þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram þurfi að fylgja frumvarp um tekjuöflunina. Nú er verið að fjalla um svokallaðan bandorm í efnahags- og viðskiptanefnd sem er í raun tekjuöflunarþátturinn. Við erum búin að samþykkja fjárlögin en eðlilegra væri að þessi tvö mál væru lögð fram samhliða, um útgjaldaliðinn, þ.e. fjárlögin, og tekjuöflunina. Við lögðum áherslu á það í málflutningi okkar í haust að setja (Forseti hringir.) fram slíkar áætlanir.