140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Agi í ríkisfjármálum er nauðsynlegur ef menn ætla nokkurn tíma að ná árangri í rekstri ríkisins. Agaleysi er meginástæðan fyrir því hvernig fór á Íslandi. Við rákum ríki með bullandi umframkeyrslu miðað við fjárlög ár eftir ár eftir ár, 6–8% umfram fjárlög á hverju einasta ári fram að hruni, farið var 75 milljarða síðustu þrjú árin fyrir hrun umfram fjárlög. Fullkomið agaleysi.

Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal nefnir í ræðu sinni, forstöðumenn stofnana bera ábyrgð, en þeir voru ekki látnir bera ábyrgð. Yfirmenn þeirra bera líka ábyrgð, ráðherrarnir, ríkisstjórnir. Það hefur reynt á það á þingi hvort draga eigi þá til ábyrgðar, það eru ekki allir sammála um það, jafnvel þó að afleiðingarnar hafi verið eins og raun ber vitni.

Í ár lögðum við fram fjáraukalög með 2,5% umfram samþykkt fjárlög fyrir þetta ár, og hefur sú prósentutala nánast aldrei verið lægri á undanförnum árum og áratugum nema í fyrra, þá var mínustala og það hefur ekki gerst áður. Það gerðist í miðri kreppunni að lögð voru fram fjáraukalög sem lækkuðu útgjaldaliði fjárlaganna fyrir árið 2010. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana, það er breytt viðhorf á þinginu, það er breytt viðhorf í fjárlaganefnd, það eru breytt viðhorf hjá ríkisstjórn og öllum sem að þessu koma sem hjálpar til þess að í stað þess að 100 stofnanir fari fram úr veittri fjárheimild, eins og tíðkaðist árum saman fram að hruni, eru það nú á bilinu 20–30 stofnanir sem það gera. Það kalla ég aga í ríkisfjármálum þó að við eigum enn langt í land með það að ná fullkomnum aga. (Forseti hringir.) Þetta er gjörbreytt umhverfi frá því sem verið hefur og áætlanagerðin er margfalt betri, enda standast fjárlög sem ekki gerðist áður.