140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans og eins þeim sem tóku þátt í umræðunni. Hún var mjög málefnaleg þó að þingmenn hafi mismunandi skoðun á því hvernig til hefur tekist.

Ég held að meginniðurstaðan sé samt sú að allir flokkar séu reiðubúnir til að taka þátt í starfi við að breyta þeim fjárreiðulögum sem við búum við. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra segir að sú vinna sé nú þegar hafin með skipun nefndar í ráðuneytinu. En ég vil þá líka leggja mikla áherslu á að fjárlaganefndarþingmenn fái að fylgjast með þeirri vinnu frá upphafi til enda. Ég tel það mikilvægt vegna þess að við höfum horft á það svo oft áður að þingmenn sem taka ákvörðunina á endanum komi of seint að málum og hafi of skamman tíma til að móta þá vinnu sem þarf að fara fram á Alþingi.

Svolítið hefur verið rætt um krónuna og fagna ég því að menn virðast vera sammála um að hér þurfi að koma á aga hvort sem við búum við krónuna áfram, sem ég tel vera langskynsamlegast, eða menn taki upp annan gjaldmiðil, sem ég held að sé mjög fjarlægur draumur. Gengið á krónunni hefur farið saman við þau útgjöld sem komið hafa úr ríkissjóði þannig að ef menn vilja stöðugan gjaldmiðil verða menn fyrst og fremst að sýna mikinn aga við fjárlagagerð (Forseti hringir.) og framkvæmd fjárlaga. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.