140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda, Höskuldi Þórhallssyni, þetta hefur verið málefnaleg og góð umræða. Ég held að okkur sé að miða áfram í þessum efnum, og það er ríkur vilji og góð pólitísk samstaða um það að koma þessum málum í eins góðan farveg og búning og mögulegt er. Það held ég að sé alveg staðfest enda væri annað skrýtið í ljósi nýlegrar reynslu okkar.

Ég minni líka á í þessum efnum nýjar fjármálareglur sveitarfélaganna sem voru tvímælalaust mikið framfaraskref á því sviði. Þar fer nú fram aukinn hluti hins opinbera rekstrar, ef svo má að orði komast. Með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga vex mikilvægi þess að fjármál sveitarfélaganna séu í traustum skorðum og séu hluti af hinni samræmdu hagstjórn í landinu.

Varðandi endurskoðun fjárreiðulaganna vil ég fullvissa hv. þingmann og aðra þingmenn um að að sjálfsögðu stendur ekkert annað til en að eiga gott og náið samráð við sérstaklega fjárlaganefnd um það mál og fulltrúar fjármálaráðuneytisins hafa þegar rætt málið við fjárlaganefnd til að tryggja að sjónarmið nefndarinnar, og þá Alþingis, komist örugglega til skila við þessa vinnu. Ég veit ekki annað en að samkomulag sé um hvernig því samráði verði háttað.

Ég vil svo gera að umtalsefni það sem hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á og snýr að því að upplýsa um og/eða bókfæra væntar skuldbindingar ríkisins. Ég er sammála hinu fyrra, það er auðvitað mjög mikilvægt að fyrir þeim sé alltaf gerð grein, að allar upplýsingar liggi fyrir um þær og það erum við að reyna að gera. Ég bendi til dæmis á umfjöllun um áhættu og veikleika sem er að finna í ríkisfjármálaáætluninni og að nokkru leyti í greinargerð með fjárlögunum sem afgreidd voru í gær.

Hitt er allt annað mál hvaða reglur eiga að gilda um bókfærslu slíkra framtíðarskuldbindinga eins og lífeyrisskuldbindingar. Mér er ekki kunnugt um að það sé almennt gert hjá ríkissjóðum landa (Forseti hringir.) að færa slíkar framtíðarskuldbindingar inn enda yrði efnahagur margra ríkissjóða ansi bágborinn í þeim löndum þar sem lítið lífeyrissjóðakerfi með sparnaði hefur byggst upp, ef þeir ættu að taka á sig og bókfæra allar framtíðarlífeyrisskuldbindingar (Forseti hringir.) sínar, og nægir að nefna Bandaríkin í þeim efnum.