140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[17:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað, a.m.k. þeir sem ég hef heyrt í, fagna þessu frumvarpi og þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að koma með þetta mál hér inn. Þetta er mál sem búið er að ræða mikið og oft hefur komið inn í þingið áður en því miður hefur þingheimi ekki lánast, ef má orða það svo, að afgreiða flutningsjöfnun út úr þinginu með þeim hætti að hægt væri að beita slíkum aðferðum. Því er sjálfsagt að þakka fyrir þetta frumvarp.

Hér hefur verið farið ágætlega yfir frumvarpið og eðlilega eru ýmsar skoðanir uppi um innihald þess. Það sem vekur strax athygli er að 200 milljónir virðist mjög há upphæð í þessu samhengi en er það í raun og veru ekki. Hér hefur verið bent á og kemur fram í gögnum frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, í skýrslu sem Shiran Þórisson vann, og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fór ágætlega yfir áðan að í raun gætu Vestfirðir einir nýtt þessa fjármuni og þyrftu svo sannarlega á því að halda. Þá eru eftir allir aðrir sem þurfa vissulega á jöfnun að halda.

Ég tek undir það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði í ræðu sinni, að við megum ekki láta átök um innihald málsins koma í veg fyrir að það verði að lögum. Það er eðlilegt og sjálfsagt að fara yfir athugasemdir sem hafa komið fram. Menn verða vitanlega að gera sér grein fyrir því að þegar hópurinn stækkar sem getur sótt í þessa fjármuni verður minna til skiptanna fyrir alla. Það undirstrikar það sem ég sagði áðan að í raun eru þessir fjármunir of litlir um leið og við þökkum að sjálfsögðu fyrir að þeir eru þó settir í þetta.

Hér hefur verið minnst á Hólmavík sérstaklega, hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem kom inn á það. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis höfum fengið tölvupóst frá framkvæmdastjóra Hólmadrangs, rækjuverksmiðjunnar, sem fór ágætlega yfir stöðu þess fyrirtækis. Þar var meðal annars bent á að næsta útskipunarhöfn eða næsta tollhöfn við Hólmavík er Ísafjörður og við það yrði miðað. Þar af leiðandi fengi þessi verksmiðja ekki styrki, sé þetta rétt túlkun, vegna þess að það eru 225 km til Ísafjarðar en ekki 245 sem talað er um í frumvarpinu. Sama má segja um annan stað, Reykhóla, sem er í rauninni sama svæði. Síðan hefur okkur verið bent á svæði eins og til dæmis Blönduós. Þangað eru, að ég held, 244 km, þetta er mjög veikt svæði efnahagslega, neikvæður hagvöxtur verið lengi, allt þetta þekkjum við, og Blönduóss fellur ekki undir þetta heldur. En við horfumst hins vegar alltaf í augu við það að samgöngur og vegalengdir vestur á firði — þetta eru vitanlega samgöngur sem við erum að ræða um — eru með þeim hætti að það er varla hægt að tala um jöfnun fyrr en búið er að laga vegina líka.

Mér var bent á það áðan, eftir að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fékk símtal hér, að flutningskostnaður á Patreksfjörð er 22 kr. á kíló á meðan algengt er að miða við upphæðina 6 kr. Við sjáum því hvers konar ójafnræði er meðal fyrirtækja sem vinna við framleiðslu á þessum stöðum.

Hér hefur verið minnst á hvaða aðferð eigi að nota við þetta og rætt hvort miða eigi við vegalengd, þ.e. bara kílómetra, eða það byggðakort sem miðað er við í frumvarpinu. Auðvitað ganga báðar leiðir mjög vel upp en ef miðað væri við vegalengdina væri að sjálfsögðu mjög fróðlegt að sjá hvernig sú leið kæmi út. Ég held hins vegar að við komum í rauninni alltaf að hinu sama, að við höfum takmarkaða fjármuni til að setja í þetta og þess vegna þarf að búa til einhverja reglu þar sem þeir nýtast best.

Í þeirri skýrslu sem ég nefndi áðan, sem Shiran Þórisson vann, koma í raun fram ótrúlegar upplýsingar, að flutningskostnaður lögaðila á Vestfjörðum sé 600–700 millj. kr., athyglisverð tala, mjög há. Síðan kemur vitanlega skýring á þessu að einhverju leyti þegar við skoðum hvað gámaeiningin kostar, hún kostar 240 þús. kr. á Ísafjörð, minnir mig það hafi verið, eða vestur á firði á meðan hún kostar 120 þús. kr. á Sauðárkrók. Þarna munar helming. Þetta getur ekki talist eðlilegt þegar munar kannski 100 km eða eitthvað svoleiðis á vegalengd, ég man það ekki alveg. En þetta er mjög sérkennilegt og það er sérkennilegt að sjá í töflu sem fylgir með að leiðin Patreksfjörður/Ísafjörður sker sig sérstaklega úr ef sýnd er línuleg fylgni milli fjarlægðar og kostnaðar.

Maður veltir því þá fyrir sér: Hver er skýringin á því? Eru flutningafyrirtækin hreinlega að okra á þessum stöðum? Er það vegna þess að þau reikna inn í sinn rekstur og inn í gjöldin þarna vestur háan kostnað á farartækin eða flutningatækin af því að þau slitna svo úti á vegum, út af lélegu vegasambandi og einhverju þess háttar? Er það skýringin? Ef það er skýringin er kannski hægt að skýra það varðandi sunnanverða Vestfirði þar sem er náttúrlega hrein hneisa hvernig vegasambandið er, en það er hins vegar búið að malbika alla leið vestur á Ísafjörð og eftir því sem ég best veit lækkaði ekki flutningskostnaðurinn vestur eftir að það var gert. Það þarf að leita skýringa á þessu.

Frú forseti. Það er mikilvægt að fara í það að jafna stöðu landsmanna. Þetta er liður í því og því fögnum við að sjálfsögðu að þetta frumvarp er komið fram.

Það kemur fram á síðustu blaðsíðu í skýrslunni sem ég nefndi hvaða áhrif jöfnun flutningskostnaðar gæti haft ef þau fyrirtæki sem þarna um ræðir hefðu betri afkomu upp á 160–220 millj. kr. Það er vitanlega það sem við þekkjum öll hvað gæti gerst, Ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að lesa eina setningu úr þessu:

„Hugsanlega gætu þau fjárfest í markaðssetningu, vöruþróun, rannsóknum og nýsköpun, sem hefði margfeldisáhrif til lengri tíma með því að skapa störf og verðmæti á svæðinu og mögulega koma til móts við slíka byggðaaðgerð.“

Þetta er nákvæmlega svona, að fyrirtæki úti á landi sem búa við háan flutningskostnað, háan rekstrarkostnað út af rafmagni og ýmsu þess háttar, geta nýtt fjármuni sína sem fara í þennan aukakostnað í einmitt verkefni sem þessi.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra núna. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan, að það er verðugt verkefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að kanna hvort hægt sé að gera jöfnuð milli landsvæða og byggðarlaga enn meiri en gert er í frumvarpinu og ég hvet nefndina að sjálfsögðu til þess. Ég vil hins vegar segja að það er ekki gott að láta málið lenda í einhverjum hnút þannig að ekki verði gengið frá því á þinginu. Ég veit að hæstv. ráðherra, sem ég þakka enn og aftur fyrir að leggja fram þetta mál, mun leggja sitt af mörkum til að gera það. Góðum ráðherrum er aldrei of hælt en þeir verða líka stundum (Gripið fram í.) að þola skammir, en nú er ég að hæla hæstv. ráðherra.

Ég ítreka það að við þurfum að klára málið í þinginu og koma því þannig fyrir að hægt sé að greiða þessa styrki. Ég hugsa að hægt sé að skora á alla þingmenn að leggja sitt af mörkum í því.