140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun.

362. mál
[18:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir að hæstv. ráðherra varð pólitískur verð ég að koma inn á pólitíkina. Síminn var seldur hæstbjóðanda fyrir 60 milljarða kr. Ég skildi aldrei hvernig kaupendurnir ætluðu að borga það enda kom í ljós að þeir borguðu það aldrei og það fór allt á hausinn. 60 milljarðar í ríkissjóð. Erlendar skuldir ríkissjóðs lækkuðu um 30 milljarða. Þetta var notað til að greiða niður erlendar skuldir, þetta var erlendur gjaldeyrir sem kom inn í landið og var notaður til að greiða niður erlendar skuldir. Það er eins gott að skulda ekki þá 30 milljarða í dag með þeim vöxtum sem nú gerast úti í heimi.

Annar kostur. Nú erum við með samkeppni á þessum markaði. Ég gef lítið fyrir það ef Landssíminn hefði verið hérna einn að vinna allan tímann. Ég gef lítið fyrir það hvað við værum komin langt í þróuninni. Það gæti vel verið að við værum þá með ódýrasta sovétkerfið í Evrópu, en það væri sovétkerfi.