140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

þjóðskrá og almannaskráning.

363. mál
[18:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta eru ágætar ábendingar hjá hv. þingmanni. Hér er um umtalsverðar hækkanir að ræða, en þær eru ekki einvörðungu vegna verðlagsþróunar heldur er verið að tala um auknar tekjur til Þjóðskrár vegna þess sem ég nefndi í framsöguræðu minni. Það er talað um að uppfæra kerfin.

Ég vil gjarnan geta þess að ég sótti nýlega ráðstefnu á vegum Evrópusambandsins með aðkomu ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem fram kom að Evrópusambandið ver árlega 5–6 milljörðum evra núna, sem eru umtalsverðar upphæðir, til að uppfæra tölvukerfi sín til að búa til rafrænt þjóðfélag.

Ég minnist þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur jafnan staðið í fararbroddi þegar um er að ræða breytingar innan stjórnsýslunnar í þá veru að gera hlutina ódýrari og hagkvæmari með því að nýta möguleika hinna rafrænu kerfa. Þetta er nokkuð sem við verðum að ráðast í.

Þá er spurningin þessi: Hvernig viljum við fjármagna þetta? Viljum við gera það með skattfé? Viljum við gera með því að auka og hækka skatta? Eða viljum við gera það með notendagjöldum?

Ég hef yfirleitt ekki verið ákafur talsmaður notendagjalda en geri þó greinarmun á notendagjöldum, annars vegar sjúklinga sem verið er að rukka vegna meina sinna og hins vegar fólks sem þarf að leita þjónustu af þessu tagi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í hlut geta átt einstaklingar sem búa við mjög bágan fjárhag, það er alveg rétt, en við erum ekki að tala um nein gríðarleg og viðvarandi útgjöld hjá slíkum aðilum.

Fyrir þjóðskrá er þetta grundvallaratriði til að okkur takist að færast með tímanum. Þjóðir heims eru allar að fara inn á þá braut að verja miklum fjármunum til að uppfæra tölvukerfi sín og fylgjast með tímanum. Út úr því kemur síðan hagkvæmara og markvissara kerfi. Við erum að afla peninga fyrir Þjóðskrá til að geta haldið til framtíðar á þennan hátt.