140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

þjóðskrá og almannaskráning.

363. mál
[18:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fasteignamat ríkisins var byggt upp á þennan hátt og skattlagningin ætlar aldrei að hætta eftir að búið er að byggja upp eitt flottasta kerfi sem til er. Það ætlar aldrei að takast að fella gjaldið niður á húseigendur í landinu sem voru látnir borga það kerfi allt saman og ég náði aldrei af hverju.

Hér er engin áætlun um að lækka þetta gjald aftur, sem ætti að gera. Þegar flott kerfi hefur verið búið til — sérstaklega þegar þessi furðulega nafnatakmörkun er farin sem ég hef aldrei skilið af því að fyrir svona 10, 20 árum var komið upp kerfi sem leyfði breytilegar stærðir á nafnasviðum og síðan þá hefur þetta verið óþarfi, þetta eru ekki nema 300 þúsund færslur eða 350 þúsund — eða búið verður að breyta þessu kerfi og gera það fínt ætti að vera hægt að hafa kostnaðinn nánast engan, en það stendur hvergi í þessu frumvarpi. Stofnunin mun því halda áfram að dæla inn peningum og blómstra og vaxa eins og allar stofnanir sem hafa markaða tekjustofna.