140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skil menningarverðmæta til annarra landa.

315. mál
[18:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 7. apríl sl. mælti ég sameiginlega fyrir fjórum frumvörpum til nýrra laga á sviði málefna menningararfs landsmanna. Það voru frumvarp til laga um menningarminjar, frumvarp til safnalaga, frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands og loks frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. Hið síðastnefnda var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 20. maí sl.

Eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarp til breytinga á þessum nýju lögum var ákveðin samverkan milli allra þeirra frumvarpa sem hér um ræðir og var m.a. gert ráð fyrir því að þau tækju öll gildi á sama tíma. Samkvæmt upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir því að það mundi gerast þann 1. janúar 2012 eins og sagði í viðeigandi ákvæðum frumvarpanna. Lög nr. 57/2011 voru samþykkt með slíku ákvæði í 16. gr.

Við frekari umfjöllun þáverandi hv. menntamálanefndar Alþingis um hin þrjú frumvörpin varð hins vegar ljóst að ekki yrði mögulegt að ljúka afgreiðslu þeirra allra í því þinghaldi sem fór fram í september sl. og var því ákveðið að leggja til samþykki tveggja þeirra með tillögu um breytingu á ákvæðum um gildistöku þeirra. Frumvörp til laga um Þjóðminjasafn Íslands og til nýrra safnalaga voru samþykkt sem lög frá Alþingi þann 17. september sl. með ákvæðum um að þau tækju gildi þann 1. janúar 2013. Frumvarp til laga um menningarminjar var hins vegar lagt til hliðar. Það frumvarp hefur nú verið lagt fram að nýju að lokinni endurskoðun, m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem hv. menntamálanefnd bárust um efni þess, og í því er nú lagt til að þau lög taki gildi þann 1. janúar 2013. Fyrirliggjandi frumvarp um breytingu á lögum nr. 57/2011, um skil menningarverðmæta til annarra landa, er því tæknilegs eðlis og einfalt að inntaki. Einfaldlega er verið að leggja til að gildistöku laganna verði frestað um eitt ár, til 1. janúar 2013, til að þau taki gildi á sama tíma og önnur lög á sviði menningararfs landsmanna sem lögin tengjast og gæta þarf samræmis við.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að fyrirliggjandi frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og vona að það hljóti skjóta afgreiðslu nefndarinnar og þingsins til að það geti orðið að lögum nú fyrir jól.