140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[18:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla frá árinu 2008, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skrásetningargjald í Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri verði hækkað úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Gjaldið hefur verið 45 þús. kr. frá árinu 2005 en þá var svipað frumvarp lagt fram af þáverandi hæstv. ráðherra, þar áður var gjaldið 32 þús. kr.

Verði frumvarpið að lögum snertir hækkunin einungis skrásetningargjöld í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Um skrásetningargjald í Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum er mælt fyrir í 15. gr. laga um búnaðarfræðslu, en samkvæmt þeim lögum munu yfirstjórnir Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum taka sjálfstæða ákvörðun um skrásetningargjöld í þá háskóla. Gera má ráð fyrir að yfirstjórnir þeirra háskóla muni í kjölfar samþykktar þessa frumvarps hækka skrásetningargjöld þeirra til samræmis.

Ósk um hækkun skrásetningargjalda kemur frá hinum opinberu háskólum að undangenginni samþykkt háskólaráðs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en þegar hefur verið gert ráð fyrir hækkuninni í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012. Miðað er við að fjárhæð gjaldanna renni óskipt til háskólanna og því er ekki gert ráð fyrir því í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til opinberu háskólanna á fjárlögum. Þessu til áréttingar má benda á að í a-lið 2. mgr. 24. gr. laganna nr. 85/2008 kemur fram að álögð skrásetningargjöld megi ekki, með leyfi forseta, „skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi“. Skráningargjaldið er því í eðli sínu þjónustugjald og það hefur verið staðfest í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 836/1993, og háskólarnir hafa lagt fram ítarlega greinargerð um þann kostnaðarauka sem orðið hefur á þessum málum innan háskólanna og telja miðað við forsendur frá árinu 2009 að þessi kostnaður nemi um 62 þús. kr. Má gera ráð fyrir að hann hafi jafnvel hækkað síðan.

Um hinar tölulegu forsendur hækkunarinnar má benda á að þetta er að sjálfsögðu talsverð hækkun, 33% hækkun skrásetningargjalda, en til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði um tæp 47% frá september 2005 til september 2010 og almenn launavísitala um tæp 42% frá ágúst 2005 til ágúst 2010.

Frumvarpið felur í sér 15 þús. kr. árlega hækkun á kostnaði hvers háskólanema við nám sitt sem þýðir að kostnaður mánaðarlega á hvern nemanda ef miðað er við níu mánaða skólaár eykst um tæpar 1.700 kr. Ég minni á í þessu samhengi að á undanförnum tveimur árum hefur mánaðarleg grunnframfærsla þeirra sem njóta framfærslulána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hækkað um 32 þús. kr., þ.e. þriðjung, sem er þá sambærileg hækkun. Sú hækkun hefur gengið í gegn á undanförnum tveimur árum.

Ég vil líka nefna að í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að háskólarnir fái heimild til að skipta gjaldinu hlutfallslega yfir skólaárið. Þetta ákvæði er til komið að ósk fulltrúa námsmannahreyfinganna og miðar að því að gefa háskólunum kost á því að jafna kostnað nemenda yfir skólaárið. Er það ósk mín að háskólarnir útfæri framkvæmd þessa ákvæðis í samstarfi við fulltrúa námsmannahreyfinganna.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.