140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[18:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, það er aldrei ómálefnalegt að skiptast á skoðunum við hv. þm. Birki Jón Jónsson svo ég segi það hér.

En ég tek fram að ég held að við þurfum að fara yfir framfærslumálin heildstætt. Eitt af því sem nú er unnið að er að skoða framfærslu þeirra sem ekki falla undir lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna, til að mynda fullorðins fólks sem snýr aftur í framhaldsskólanám og á þá í miklum erfiðleikum með að finna sér framfærslu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að samhliða því að væntanlega verður lagt fram frumvarp með hugmyndum að endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem verður til umræðu á þinginu skoðum við líka framfærslu annarra í kerfinu. Þar vinnum við hæstv. velferðarráðherra saman að því að skoða hvernig hægt sé að hvetja (BJJ: Já, það er nú ekki dónalegt.) fólk til náms.

Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar og ég er sammála honum í því að þetta eru allt stór mál. Þarna ríkir viðkvæmt jafnvægi og má ekki raska því um of en ég held að það sé líka mikilvægt að við skoðum þetta í þessu heildarsamhengi.