140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[19:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju lýðskrums að gagnrýna 3,5% hækkunina á lífeyri, ég tel að staða ríkissjóðs sé þannig að ekki sé hægt að gera neitt betur.

Ég geri hins vegar athugasemdir við þessi úrræði fyrir atvinnulausa. 2.400 einstaklingar hafa verið atvinnulausir síðan fyrir hrun og hafa ekki verið virkjaðir. Þetta er á ábyrgð okkar allra, þetta eru mannleg örlög sem eru mjög hörð. Þetta fólk hafði ekki gert neitt af sér, þetta er eini forsendubresturinn sem ég sé af hruninu, þegar menn misstu vinnuna og gátu ekki borgað af lánunum sínum, gátu ekki borgað framfærslu sína, algjörlega óverðskuldað. Þetta var mjög stór hópur og hér sitja enn eftir 2.400 einstaklingar með mjög hörð örlög vegna þess að þeir geta sennilega ekki nálgast vinnumarkaðinn aftur. Og það er vegna þess að við höfum ekki virkjað þá nægilega mikið.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Þarf ekki að gera miklu meira og miklu fyrr til að virkja fólk og virkja það svo mikið að það sé að störfum frá 9 til 17, eins og ég hef lagt til? Þá minnkum við alla misnotkun, hún hverfur, og við látum þetta fólk ekki koðna niður heima hjá sér í aðgerðaleysi og tilgangsleysi — og hlutverkaleysi sem er sennilega það versta.