140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[19:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að það er óþolandi ástand fyrir það fólk sem lendir í þeirri stöðu — það er rétt að orða það þannig — að verða atvinnulaust, fá ekki vinnu, vera tilbúið að vera á vinnumarkaði en fá ekki tækifæri, sækja jafnvel ítrekað um en fá sífellt neitun ef því er yfir höfuð svarað. Þó að þessir einstaklingar séu ekki 2.400 heldur rúmlega 2 þús. er það gríðarlegur fjöldi sem hefur verið atvinnulaus frá 1. mars 2008.

Það er hins vegar ekki rétt að þessir einstaklingar hafi ekki verið virkjaðir. Það eru mjög strangar reglur hjá Vinnumálastofnun eftir því á hvaða aldri menn koma inn í atvinnuleysi. Menn eru kallaðir skipulega inn í virkniúrræði af ólíkum toga, þeir fá tækifæri til að velja. Það sem hefur þó kannski ekki verið nægilega mikið í boði, og það kom ágætlega fram í kynningunni á frumvarpinu, eru þessi svokölluðu starfstengdu úrræði þar sem fólk er kallað í raunverulega vinnu. Þar hefur árangurinn verið hvað bestur. Það er gríðarlega mikilvægt að atvinnurekendur og sveitarfélög, og ríkið sem hefur gert þetta á sumrin með allt að 900 manna námsmannaátaki, virki fólk, kalli það til starfa og láti það vinna ákveðinn tíma. Það hefur skilað bestum árangri.

Auðvitað getum við gert betur en starfið hjá Vinnumálastofnun er umfangsmikið og gríðarlega gott fyrirkomulag um það hvernig haldið er utan um fólk og því boðin aðstoð við virkni og gerð tilboð um þjónustu.