140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[19:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns. Það er mikilvægt að halda fyrirvörum til haga í þessu efni eins og öðrum en ég tel að fyrirvarinn sé e.t.v. á misskilningi byggður að hluta til þar sem það orðalag sem þingmaðurinn notar í ræðu sinni og lýtur að endurnýjum skatts á ekki við því að ekki er um það að ræða. Það gjald sem innheimt er til að standa straum af ofanflóðavörnum, þau 0,3‰ sem verið hafa í umræðunni og eru í lögunum, byggir sjóðinn upp sem nemur 1.200–1.400 millj. kr. á ári.

Enn á eftir að ljúka gríðarlegum framkvæmdum í því mikla átaksverkefni sem þingmaðurinn ræddi um, en farið var í það verkefni eftir snjóflóðin fyrir vestan á sínum tíma. Til að mynda á eftir að fara í mjög dýrar framkvæmdir á Patreksfirði, Ísafirði, Siglufirði og í Neskaupstað og í minni framkvæmdir á Bíldudal, Seyðisfirði og víðar þannig að sá hluti sem lýtur að hættumatinu sjálfu, þ.e. ofanflóðamatinu, lýkur á allra næstu missirum. Það er verkefni sem útheimtir brotabrot af þeim kostnaði sem sjóðurinn stendur undir ár hvert. Það er því í raun og veru mjög lítill hluti sem þar er undir.

Varðandi breytingu þá sem lögð er til á lögum um ofanflóð — og mætti sannarlega huga sérstaklega að því hvort yfirskrift laganna nær utan um þá breytingu á hlutverki, í anda góðrar meðvitundar um íslenskt mál, en það er önnur umræða — er þar um að ræða afar varfærnislega og litla breytingu á hlutverki sjóðsins. Í fyrsta lagi er hún takmörkuð við þrjú ár. Það er algerlega rammað inn að þar er ekki verið að opna fyrir grundvallarbreytingu til langrar framtíðar heldur er talað um þrjú ár og nefndar eru skýrar upphæðir, 35 millj. kr. á ári þessi þrjú ár. Það er til þess að ofanflóðasjóður leggi sitt af mörkum til að standa straum af gríðarlega dýru og stóru verkefni sem er mat og úttekt á hugsanlegum og mögulegum áhrifum náttúruvár vegna eldgosa.

Í þeirri umræðu sem verið hefur í kjölfar þeirra miklu eldgosa sem orðið hafa á þessu tiltölulega viðburðaríka kjörtímabili hafa fulltrúar frá Almannavörnum og öðrum þeim sem hafa með náttúruvár að gera, viðbrögð við þeim og vöktun, eins og Veðurstofu Íslands, lagt á það áherslu að við séum að mörgu leyti vanbúin hvað varðar þennan þátt, þ.e. að sjá fyrir möguleg áhrif náttúruvár, kortleggja þau að því er varðar áhrif á gróður, mannvirki og mannlíf en ekki síður að kortleggja þá innviði samfélagsins sem einkum reynir á við slík áföll. Sú kortlagning sem hér er lagt upp í og fyrstu skrefin stigin að og ofanflóðasjóður, verði þetta frumvarp að lögum, tekur þennan þátt í, er í raun og veru viðfangsefni sem tekur að minnsta kosti einn ef ekki tvo áratugi. Um er að ræða ítarlega kortlagningu á mögulegum áhrifum eldgosa í hverju eldfjallinu á fætur öðru, ef svo má að orði komast, meðal annars hraungosi í byggð og því líkum hamförum sem við þyrftum, miðað við stöðuna eins og hún er núna, að bregðast við þegar og ef að því kæmi.

Við sjáum dæmi þess að góð kortlagning og áætlunargerð og gott og skýrt hættumat geta skipt miklu máli. Slíkt mat hefur verið gert varðandi hugsanlegt Kötlugos og það mat er til. Í það var lagt fé á sínum tíma og það hjálpar bæði yfirvöldum og almannavarnayfirvöldum á Suðurlandi sérstaklega þegar til hlaupa kemur. Það er í anda þess sem fer mjög vaxandi, má segja, bæði að því er varðar náttúruvá og hamfarir af manna völdum, að kortleggja verstu mögulegu uppákomur. Það er skref í áttina að því þannig að við getum verið betur undir slíkt búin á þessari lifandi eyju, á þessum heita reit, eftir að hafa fengið um það leiðsögn Almannavarna og annarra þeirra sem best til þekkja á þessu sviði og hvað er að gerast í löndunum nálægt okkur og í almannavarnageiranum, ef svo má að orði komast. Þetta er gert samkvæmt ráðleggingum þeirra.

Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir á móti því að skoða lögin í heild og ég held að það gæti verið mjög gagnlegt að gera það, ekki síst með hliðsjón af þeim þáttum sem fram komu í máli hv. þingmanns að því er varðar áhrif á náttúruna af völdum hlýnunar jarðar. Það er veruleiki sem við sjáum að mætir okkur miklum mun hraðar en gert var ráð fyrir fyrir örfáum árum. Rannsóknir á slíku og undirbúningur fyrir samfélagið, hvort sem er fyrir innviði samfélagsins eða rannsóknarsamfélagið, skiptir gríðarlega miklu máli. Það er verkefni sem við þurfum að huga að og þó að þarna sé um að ræða skilgreint og skýrt átaksverkefni sem hófst 1997 með þessum lögum, tæmir það engan veginn þörf okkar fyrir að kortleggja náttúruvá og gera okkur betur í stakk búin til að bregðast við henni þegar aflið brestur á.

Ég þakka annars fyrir góða umræðu og vænti þess að frumvarpið fái góða og gagnlega yfirferð í nefndinni. Ég óska nefndinni velfarnaðar í yfirferð sinni í þessum efnum eins og öllum öðrum þeim verkefnum sem hún hefur með höndum og ég vonast eftir góðu samstarfi hvað þetta varðar.