140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[20:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla um þörfina á góðu hættumati og líst vel á það sem til stendur í þeim efnum og kemur fram í greinargerðinni. Aðalmálið í ræðu minni var þetta, og ég les upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Svo unnt sé að hefja vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa á Íslandi og nauðsynlegt fjármagn til verksins sé tryggt eru tveir kostir í stöðunni. Annars vegar að veitt verði fé af fjárlögum næstu þrjú árin, um 35 millj. kr. á ári, eða hins vegar að breyta lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að ofanflóðasjóði verði heimilað að taka þátt í kostnaði við gerð hættumats vegna eldgosa á Íslandi og var sú leið valin við gerð frumvarps þessa. Vinna við hættumat vegna ofanflóða sem greidd hefur verið úr ofanflóðasjóði er nú á lokastigi, þannig að verði ákveðið að fjármagna þennan kostnað úr ofanflóðasjóði næstu þrjú árin yrði ekki um hreinan viðbótarkostnað að ræða.“

Það er rétt, það er sem sé eitt verkefni á leiðinni burt og skatturinn af þeim stofni sem notaður var til að fjármagna það á núna að taka til að fjármagna annað verkefni. Þetta kemur líka fram síðar í greinargerðinni. Þar er rætt er um 0,3 prómillin frægu. En vekja verður athygli á því og það þurfum við í nefndinni að fara yfir, að þetta með þrjú árin er ekki í því frumvarpi sem lagt er til að verði að lögum. Það er ekki neitt um þrjú ár í 3. gr. Það er bara að í framtíðinni verði þessi sjóður notaður til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa.

Það sem ég er einfaldlega að segja er það að ég áskil mér fullan rétt til að fara í gegnum þetta mál í nefndinni. Ég hef við það fyrirvara eins og það lítur út núna og sá fyrirvari er af þessum prinsippástæðum. Ég tel að málið mundi strax skána við það að taka þessi þrjú ár og setja þau í 3. gr. Þá er ljóst að um bráðabirgðaaðgerð er að ræða meðan staða ríkisfjármála er eins og raun ber vitni.