140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[20:08]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér nú bara að koma í örstutt andsvar við hæstv. ráðherra. Ég hef hlustað á þessar umræður af mikilli athygli og segi eins og hæstv. ráðherra, það væri vel ef allir hv. þingmenn væru jafn vel vakandi og hv. þm. Mörður Árnason. Ég verð þó að segja að ég deili ekki eins miklum áhyggjum með honum þó að við þurfum vissulega að ræða þetta vel í nefndinni og vek athygli á að í athugasemdum við frumvarpið er talað um þriggja ára verkefni. Við getum þá skoðað að hnykkja sérstaklega á því.

Mér datt reyndar líka í hug þegar ég hlustaði á hv. þingmann að kannski getum við greitt úr þessu vandamáli öllu með því að kalla þetta bæði ofan- og neðanflóðasjóð. Þá er málið leyst með einni lítilli nafnbreytingu á sjóðnum. En að öllu gamni slepptu langar mig aðallega að spyrja hæstv. ráðherra — ég tek undir áhyggjur hennar og deili að sjálfsögðu sem við hljótum öll að gera. Það virðist blasa við að tímabil aukinnar eldvirkni sé hafið og við séum á margan hátt vanbúin. Við þurfum að taka þetta mjög alvarlega.

Mér finnst þau reyndar líka góð, sjónarmiðin sem fram komu í máli hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi heildarendurskoðun og hugsanlegan hamfarasjóð o.s.frv. þótt það sé auðvitað eitthvað sem taki mun lengri tíma. En þetta verkefni byggir á því verkefni sem að miklum hluta er þegar hafið, þ.e. að Veðurstofa Íslands fékk fjármagn til að gera úttekt á íslenskum eldstöðvum vegna alþjóðaflugs og sú vinna mun nýtast mjög vel í þeirri vinnu sem fyrirhuguð er og mun nýtast íslensku samfélagi öllu.

Þess vegna langar mig einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra hversu miklu máli tímaramminn skipti. Skiptir ekki máli einmitt að verkefnið fái áfram traustan grunn sem fyrst þannig að allir geti séð með vissu að það nái að halda áfram svo ekki myndist nein brotalöm í því? Þetta var mín spurning.