140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að við hv. þm. Mörður Árnason sátum saman í allsherjarnefnd sem gekk frá þessu frumvarpi um Stjórnarráð Íslands síðla sumars. Það er hins vegar ekki alveg rétt hjá honum, án þess að ég telji það skipta meginmáli í þessu, hver afstaða mín til þessara hljóðritana var. Við hv. þingmaður höfðum ekki sömu afstöðu til þeirra í nefndinni, en eins og ég gat um í ræðu minni áðan skiptir það ekki máli í þessu sambandi.

Í annan stað vil ég gera athugasemd við það, virðulegi forseti, að mér finnst eins og hv. þingmaður sé að gefa í skyn að hér sé verið að fara einhverja leynipúkaleið. Svo er alls ekki. Þetta ákvæði er tekið beint úr frumvarpi til upplýsingalaga, ég held að það sé búið að leggja það fram og það er til prentað en ekki gafst tími til að mæla fyrir því fyrir jól. Það frumvarp var lagt fyrir þingflokkana. Það má vel vera að hv. þingmaður hafi verið fjarverandi en ég gerði sérstaklega grein fyrir því þegar við afgreiddum málið út úr þingflokki Samfylkingarinnar að þarna inni væri ákvæði um þessa 11 mánuði þannig að það er ekki verið að fara neina leynipúkaleið. Það er það eina sem ég er að vekja athygli á.

Það verður væntanlega talað fyrir frumvarpi til upplýsingalaga á fyrstu dögunum í janúar og það kemur þá inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til meðferðar. Þá eru náttúrlega allar leiðir færar. Þótt gefinn sé 11 mánaða frestur þýðir það ekki endilega að menn þurfi að nota hann allan — eða eru það ekki 10 mánuðir ef miðað er við 1. nóvember? Hins vegar er það mín staðfasta skoðun, og okkur hv. þingmann getur greint á um það, að það sé betra að gefa langan frest þannig að hægt sé að fara gaumgæfilega ofan í þetta allt saman og fólk hafi þá ekki þá afsökun síðar að segja: Nú þurfum við að fresta þessu enn og aftur. Það er nær að gefa nógu langan tíma strax til að það sé örugglega hægt að ganga úr skugga um þessi vafaatriði.

Svo vil ég segja það líka, virðulegi forseti, að þegar hv. þingmaður segir að það hafi verið meining okkar allra í nefndinni þegar við fórum yfir þetta að 30 ár þýddu 30 ár að það er ekki nóg að hafa einhverja skoðun þegar grannt verður skoðað, þegar við setjum lög þurfum við að skrifa þau mjög nákvæmlega niður.

Þannig liggur í þessu máli og því flyt ég málið. Mér finnst ég ekki vera að laumupokast vegna þess að allt hefur þetta legið fyrir í að minnsta kosti tvær vikur eða þrjár, þ.e. að þetta ákvæði væri í þessu frumvarpi til upplýsingalaga.