140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslands.

[13:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er gott að utanríkisráðherra er bjartsýnn á að Evrópu muni nú ganga betur að ná tökum ástandinu þar og ég deili þeirri skoðun með hæstv. utanríkisráðherra að það er mikilvægt að Evrópa vinni úr sínum vandamálum. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustóli að ég tek litla gleði í því að horfa á erfiðleikana sem þar er við að stríða og nota þá hér á miður uppbyggilegan hátt til heimabrúks. Ísland á, eins og öll önnur lönd, ekki síst þau sem nátengdust eru Evrópu í efnahagslegu og viðskiptalegu tilliti, mikið undir því að úr þessum málum leysist og það á reyndar allur heimurinn.

Því miður er ég ekki jafnsannfærður um að það sjái fyrir endann á þessum erfiðleikum og það er heilmikið eftir sem snýr að útfærslu þessara aðgerða. Það á líka eftir að sjá hvernig Evrópu gengur skipulagslega að festa þetta í sessi í ljósi andstöðu Breta við að taka þetta inn í sjálfan stofnsamning Evrópusambandsins. Það þarf margt að skýrast í þessum málum, held ég, áður en heildarmyndin blasir við. En ég endurtek það að vonandi leysist og greiðist úr þessum málum því að það er mikilvægt fyrir allra hluta sakir.

Spurningunni um stöðu Íslands og tengsl Íslands þarna held ég að eigi heldur ekki að svara í fljótræði út frá óvissuástandi og erfiðleikum augnabliksins. Það hlýtur að vera mat á langtímahagsmunum okkar tengt þeirri Evrópu sem þá vonandi rís upp úr þessum erfiðleikum. Það hljótum við að vona að gerist. Það hefur ekki þurft þessa erfiðleika til til að snúa mér í þessu máli. Afstaða mín er óbreytt eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti þó að hann láti stundum annað í orðum vaka í ræðustóli.

Ég hef ekki metið það svo að það þjónaði heildarhagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið. Það breytir engu um hitt að við þurfum að eiga góð tengsl við það og rækta okkar viðskipta-, stjórnmála- og menningarsamband sem Evrópuþjóð við önnur lönd þar og við þurfum auðvitað að fá niðurstöðu í það hvernig framtíðartengslum Íslands að þessu leyti til verði háttað. Það hverfur ekki óháð erfiðleikum augnabliksins og þess vegna hef ég ekki verið talsmaður einhverra skyndiákvarðana eða upphlaupa í þessum efnum.