140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

tekjuhlið fjárlaga.

[13:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Staðreyndirnar tala sínu máli, þær sem ég fór yfir varðandi tekjuskattinn, og að ekki er hróflað við virðisaukaskattinum heldur hafa frekar verið uppi hugmyndir um að lækka hann, og við erum að framlengja ívilnanir, t.d. um 100% endurgreiðslu vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði. Nefna má frumvarp um að gera sölu listamanna á eigin verkum meira frádráttarbæra frá virðisaukaskatti og þar fram eftir götunum. Tekjuskattur, virðisaukaskattur, tryggingagjald og flestir hinna stóru breiðu skattstofna ýmist heldur lækka eða eru óbreyttir. Þetta er veruleikinn. Það á ekki að uppnefna verðlagsuppfærslu krónutölugjalda, áfengis- og tóbaksgjalda og annars slíks sem skattahækkun því að það er það ekki. Verið er að láta þessa tekjustofna halda sjó að óbreyttu raungildi.

Tekjuforsendur fjárlaganna hafa verið að treystast mjög með nýjum upplýsingum úr hagkerfinu. Að sjálfsögðu eru horfurnar mun vænlegri í ljósi þess að hér er kraftmikill hagvöxtur í gangi. Það skyldi nú ekki fara svo að þegar árið 2011 verður gert upp á grundvelli traustari upplýsinga (Forseti hringir.) eftir á séð, verði hagvöxturinn 4% plús á þessu ári. (Gripið fram í.)