140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

niðurstöður loftslagsráðstefnu í Durban.

[13:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um stöðu mála eftir loftslagsráðstefnuna í Durban. Það má eiginlega segja, þó að hv. þingmaður hafi ekki orðað það beinlínis þannig, að eina ferðina enn varð niðurstaðan sú að komast að niðurstöðu síðar. Ég held að það sé ekki ofmælt að tíminn er ekki bara á þrotum heldur er hann í raun og veru runninn út. Ef við ætlum að komast að samkomulagi, og þá er ég líka að tala um mannkynið þegar ég segi við, árið 2015 um aðgerðaáætlun fyrir jörðina sem hefst 2020 er það of seint.

Við horfumst í augu við það að hlýnunin sem verður að óbreyttu gjörbreytir veðurfari og náttúrufari um alla jörð. Við erum í hópi þeirra ríkja sem vilja framlengja Kyoto-bókunina, við viljum horfa á loftslagsmálin heildstætt og reyna að skapa eins mikla vissu um líklegar skuldbindingar og hægt er. Þess vegna fórum við í samflot með Evrópusambandinu — sem á ekkert skylt við aðildarumsókn svo því sé haldið til haga — sem byggir á því að við tökum loftslagsreglur ESB inn á þessu ári og því næsta samkvæmt EES-samningnum. Með því þurfum við ekkert undanþáguákvæði frá Kyoto eins og er í gildi nú. Það koma einfaldlega engar kröfur á Ísland umfram þær sem verða í Evrópureglum.

Varðandi aðgerðaáætlunina sem hv. þingmaður spurði um var áskilið í henni að hún yrði endurskoðuð að tveimur árum liðnum sem er núna upp úr áramótum. Við komum til með að gera það. Það er ljóst nú þegar að um verulegar forsendubreytingar er að ræða sem ég get væntanlega komið að í síðara svari mínu.