140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

fsp. 5.

[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Í sjálfu sér voru engin fyrirheit gefin á fundinum með heimamönnum á Ísafirði. Ég var að vitna til þess að fulltrúar heimamanna lögðu áherslu á hversu vel peningarnir sem komu þessa leið og voru sérmerktir til minni atvinnu- og rannsóknarþróunarverkefna, hefðu nýst þeim, hversu vel þeir hefðu komið sér, og lögðu áherslu á að svo yrði áfram. Svo að rétt sé rétt í þeim efnum.

Þetta eru ekki stórir peningar, eins og hv. þingmaður vék að, um 100 millj. kr. sem voru á vegum AVS-sjóðsins og það er sérstök stjórn hjá sjóðnum sem auglýsir eftir umsóknum og tekur ákvörðun um úthlutun á grundvelli þeirra. En þetta hefur vakið mikla ánægju (Forseti hringir.) og styrkt þessi litlu rannsóknar- og þróunarsetur út um allt land og ég stend með þeim.