140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu hans um þær tillögur sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur fram. Mig langar að heyra aðeins betur ofan í hv. þingmann um samanburð fjárlaganna sem samþykkt voru í síðustu viku og þeirra tillagna sem meiri hluti nefndarinnar leggur hér fram. Það væri forvitnilegt að sjá þann samanburð með öðrum hætti en sem grein í nefndarálitinu því að ég tel nauðsynlegt fyrir þingið að fá fram þann mun sem er á tölunum í nýsamþykktum fjárlögum annars vegar og hins vegar í þessum tillögum og þeim áhrifum sem þær hafa á nýsamþykkt fjárlög.

Í nefndarálitinu kemur fram að nefndin hafi án árangurs óskað eftir nánari upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu þar sem upplýsingin á að liggja fyrir því að ekki ætla ég að nefndarmenn séu uppteknir við að reikna daginn út og inn þær tillögur sem fyrir þá eru lagðar. Ég vildi því gjarnan heyra örlítið nánar frá hv. þingmanni um þetta.