140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um það er að segja að í því máli sem er á dagskrá síðar á þessum þingfundi er um að ræða nokkur áhrif og umtalsverð á rekstrargrunn fjárlaga en ekki á greiðslugrunninn, og er það af tæknilegum sökum. Í sjálfu sér munu fjármunirnir skila sér í ríkissjóð á næsta ári með sama hætti og gert var ráð fyrir í þeim breytingum en með þeirri aðferð sem lögð er til við skattlagninguna verður ekki unnt að bókfæra það á rekstrargrunni fyrr en á árinu 2013, og það varðar um 2,2 milljarða.

Um breytingarnar í þessu máli, ráðstöfunum í ríkisfjármálum, má segja að fulltrúar fjármálaráðuneytisins voru á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær og upplýstu að þær hefðu hverfandi áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga enda væru þetta hækkanir og lækkanir á víxl sem stæðust nokkurn veginn á, svo sem í tekjuskattinum, í breytingunum á þrepunum koma á móti auknar tekjur í (Forseti hringir.) tekjuskattinum af lengri úttektarheimild og ég get rakið nokkur önnur dæmi í síðara andsvari.