140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég held að þinginu sé nú ráðlegt að taka með fyrirvara munnlegum yfirlýsingum fjármálaráðuneytisins um að tekjur og gjöld standist fyllilega á. Ég hefði trúað öðru af hv. þingmanni en að leggja fullan trúnað á slíkt.

Mig langar hins vegar að gefnu tilefni að inna hv. þingmann eftir því sem kom til tals við umræðu og afgreiðslu á fjárlögunum og laut að yfirferð þingsins á tekjugrein fjárlaga. Ég veit að fjárlaganefnd óskaði eftir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um það, sem ekki barst. Í þingsköpum segir að fjárlaganefnd sé ætlað að veita efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um tiltekin frumvörp sem varða tekjugreinina. Í dag eru nokkur mál á ferðinni sem eru óumdeilanlega þess eðlis en mér vitanlega hefur ekki legið fyrir álit frá fjárlaganefnd um þau á borði efnahags- og viðskiptanefndar og ég spyr hv. formann hvað valdi.