140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hægt að taka undir áhyggjur hv. þingmanns af hækkun kolefnisgjalda. Ég vek athygli á að í efnahags- og viðskiptanefnd er jafnframt til umfjöllunar frumvarp um jöfnun flutningskostnaðar sem getur skipt nokkru máli fyrir ýmsa þá aðila, einkanlega úti á landsbyggðinni, sem ég veit að hv. þingmaður ber hag fyrir brjósti.

Þegar litið er til hækkana á eldsneyti almennt held ég að þetta séu ekki miklar hækkanir miðað við þær aðstæður sem nú eru. Við höfum kannski farið í gegnum það versta þegar verðbólgan var sem mest á árunum 2008 og 2009 og saman fór að eldsneytisverð á alþjóðamörkuðum fór mjög hratt hækkandi og hafði hækkað mikið á skömmum tíma, og við þurftum að elta verðbólguna og um leið var að leggjast á almenning hækkunin á heimsmarkaðsverði og hrunið á íslensku krónunni. Ég held að þessar breytingar séu fremur litlar í samanburði við það sem við höfum áður farið í gegnum.