140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gladdi mig í máli hv. þm. Helga Hjörvars, formanns nefndarinnar, að hann talaði hlýlega um sparnað. Öðruvísi mér áður brá.

Hann gat um að þeir borgi auðlegðarskatt sem mestar eignir hafa en hann gleymdi þar verðmæti lífeyrisréttinda sem t.d. ráðherrar hafa í miklum mæli og eru ekki talin til auðlegðar en koma samt mönnum til góða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort nefndin hafi kannað hvort það hafi verið gert oft áður í lagasetningu að ganga inn í samninga milli einkaaðila, eins og á nefndin ætlar að gera með ákveðnum rökum með séreignarsparnaðinn.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann um hagsmunagæsluna gagnvart gistináttagjaldinu þar sem aðilar sem borga ekki einu sinni virðisaukaskatt af gistináttagjaldinu eiga allt í einu að sleppa við að taka þátt í að standa undir kostnaði við viðhald náttúruauðlinda Íslands.