140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að hafa áhugamenn í þinginu um sparnað og hv. þm. Pétur H. Blöndal er einn af þeim. Hann hreyfir hér við athyglisverðu máli sem er að lífeyrisréttindi eru auðvitað líka eignir og sumt fólk á ekki mikil lífeyrisréttindi en á talsverðar eignir til efri áranna og þykir óréttlátt að þær sæti skattlagningu. Þetta sjónarmið ætti þó ekki við um almenn lífeyrisréttindi. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir hv. þingmann hvort hann vilji ekki flytja um það breytingartillögu að lífeyrisréttindi umfram eitt hundrað milljónir kannski eða þaðan af hærri upphæðir skuli teljast inn í auðlegðarskattinn. Til að mynda hefur einn einstaklingur samkvæmt upplýsingum okkar meira en 900 þús. kr. á mánuði í lífeyrisréttindi. Það kann að vera að í einhverjum slíkum mjög afmörkuðum tilfellum beri að líta til þess.

Ég held þó að þarna sé ekki eftir miklum fjárhæðum að slægjast og mundi ekki leggja það til sjálfur.