140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Lífeyrisréttindi landsmanna í heild sinni eru 2 þús. milljarðar að verðmæti þannig að ég sé ekki af hverju ætti ekki að telja þær eignir til auðlegðarskatts eins og aðrar eignir fólks sem það hefur sparað með öðrum hætti. En ég er á móti auðlegðarskatti sem slíkum.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um gistináttagjaldið. Gistináttagjaldið var lagt á til að bjarga náttúruverðmætum eins og Þórsmörk og öðrum slíkum frá skemmdum vegna ágangs túrista. Ég hugsa að þeir sem búa í bústöðum stéttarfélaga og fara með ferðafélögum um landið gangi ekkert minna um þessar náttúruauðlindir en aðrir. Ég skil því ekki af hverju þeir sem borga ekki einu sinni virðisaukaskatt eigi að sleppa við gistináttagjaldið.