140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bjarga því sem bjargað verður, menn geta svo sem kallað það hvað sem er. Ég lít svo á að hlutverk nefnda þingsins sé að fara yfir þau mál sem hér koma fram og reyna að gera á þeim breytingar til batnaðar. Ég er ánægður að heyra frá fulltrúum held ég allra flokka að menn telja þær breytingar sem gerðar eru í meðförum þingsins vera heldur til batnaðar. Áhrifin af aukinni skattheimtu eru auðvitað neikvæð en ekki verður hjá því komist að fara í hana.

Ég ætla ekki að fara með hv. þingmanni aftur inn í Ráðhús Reykjavíkur til að halda áfram þeim umræðum sem við lukum þar fyrir hartnær áratug síðan. Ég vil segja almennt um þær breytingar sem við höfum ráðist í á skattkerfinu, oft með litlum fyrirvara og sannarlega ónægri rýni á köflum, það skal fúslega játað, að í öllum aðalatriðum hefur tekist að verja tekjur ríkissjóðs og skapa nýja tekjustofna til að rétta af þann gríðarlega halla sem hér var á ríkissjóði. Okkur tekst vonandi að tveimur árum liðnum að ljúka því ætlunarverki. Það er einfaldlega gríðarlega mikilvægt því að við megum ekki safna meiri skuldum á komandi kynslóðir en við höfum þegar gert.