140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér þykir ástæða til að koma hér upp vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars áðan um að ástæða þess að fjárlaganefnd gat ekki veitt efnahags- og viðskiptanefnd umsögn, eins og hún á að gera samkvæmt þingsköpum, hafi meðal annars verið sú að fjárlaganefnd gat ekki fundað á hverjum degi og að þetta hafi verið rætt á fundum forsætisnefndar með formönnum þingflokka.

Ég tala ekki fyrir hönd forsætisnefndar þar sem ég á ekki sæti í henni en ég vil að það komi skýrt fram að ég kannast ekki við að þetta hafi verið rætt á fundum formanna þingflokka fyrr en í dag. Og þá gerði ég athugasemd við að því væri haldið fram að þetta hefði verið rætt þar og þessi málsmeðferð þá væntanlega samþykkt. Þetta verklag kannast ég ekki við og vil að það komi skýrt fram við þessa umræðu.