140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir hófstillta ræðu Þó að í ræðu hans hafi komið fram gagnrýni eins og við mátti búast á ýmsa þætti í frumvarpinu sem hér er til umræðu, gladdi það mig að hann skyldi þó sjá ljósið víða og hrósa því sem vel er gert, sérstaklega að hann skyldi í máli sínu leggja trúnað á nýjustu þjóðhagsspá sem hlýtur að styrkja undirstöður ríkisfjármálanna eins og lagt er upp með.

Tvennt af því sem þingmaðurinn fór yfir í sínu stutta máli hefur verið talsvert til umræðu hér. Í fyrsta lagi að tekjuhliðin sé brothætt og þá er hann væntanlega að vísa til þeirra atriða sem koma fram í þessu frumvarpi. Þá ber að sjálfsögðu að hafa í huga að það tekur að sjálfsögðu bara til lítilla hluta af heildartekjum ríkissjóðs. Í frumvarpinu erum við kannski að tala um stærðargráður á bilinu 7–8 milljarðar eða svo á meðan heildartekjur ríkissjóðs eru um 520 milljarðar samkvæmt fjárlögum. Þannig að jafnvel þó að einhverjir óvissuþættir væru þar eða frávik, slær það ekki mjög mikið út í heildartekjur ríkissjóðs. Ég vil inna þingmanninn eftir hvort hann sé ekki sammála því.

Hitt sem hefur komið hér til umræðu er meintur skortur á umsögn fjárlaganefndar um tekjuhlið fjárlaga. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að umsögn fjárlaganefndar eða að minnsta kosti meiri hluta fjárlaganefndar um tekjuhlið fjárlaga birtist í raun í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, þ.e. í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið í fjárlagafrumvarpinu um tekjuhlið fjárlaga. (Gripið fram í.) Þar birtist sú afstaða sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur til tekjuhliðarinnar. (Gripið fram í.) Er hann ekki sáttur við að fjárlaganefnd hafi þar með í raun og veru sagt hvað henni finnst um tekjuhliðina (Forseti hringir.) og hvernig hún þurfi að vera?