140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar.

Fyrsti hluti af ræðu minni fjallaði almennt um forsendur fyrir tekjuhlið frumvarpsins. Ég tók reyndar sérstaklega fram að ég mundi einungis ræða um hluta af þeim sköttum sem fjármagna eiga frumvarpið og það yrði margt útundan.

Það sem ég vil endurtaka er að þegar ég tala um brothætta tekjuhlið er ég að meina alla tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Ég held að einn þáttur hennar sé ekki brothættari eða sterkari en aðrir þættir.

Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að í fjárlagafrumvarpinu sem nú hefur verið samþykkt, kemur algjörlega fram vilji þeirra sem það samþykkja um hvernig tekjuhliðin eigi að líta út. Það sem við erum að bauka við hérna er að láta þetta ganga einhvern veginn upp. Það sem mér finnst vanta er að fjárlaganefnd gefi álit á því hvort breytingarnar sem stjórnvöld leggja til og við erum að gera ýmsar breytingar á, muni leiða til þeirrar niðurstöðu sem ætlast er til í frumvarpinu. Ég er ekki sammála því að þetta álit þurfi ekki.