140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða framsögu.

Þingmaðurinn lýsti áhyggjum sínum af eignaupptökunni sem felst í auðlegðarskattinum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé sáttur við eignatilfærsluna sem átti sér stað frá skattgreiðendum og skuldsettum heimilum til fjármagnseigenda þegar innleidd var hér full innstæðutrygging í gegnum verðtrygginguna? Ef hv. þingmaður er ekki sáttur, hvað leggur hann þá til að verði gert til að snúa þessari miklu eignatilfærslu til baka að einhverju leyti?

Ég vil líka spyrja um fjársýsluskattinn sem hv. þingmaður fjallaði aðeins um. Ég vil vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þegar lagður er skattur á launaupphæð eins og gert er ráð fyrir í þessum fjársýsluskatti, eigi það að skapa hvata til að segja upp hálaunastarfsmönnum sem í flestum tilfellum eru karlar í fjármálageiranum en ekki konur. Fullyrðingar fulltrúa fjármálageirans um að fjársýsluskatturinn leiði til uppsagna kvenna á landsbyggðinni standist því ekki hagfræðilega hugsun. Er hv. þingmaður sammála því?