140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans kynngimögnuðu ræðu. (BJJ: Takk.) Vel flutt að venju og skemmtileg áheyrnar.

Mig langar hins vegar að spyrja hann um nokkur atriði hvað snertir Framsóknarflokkinn og stefnu hans í tekjuskattsmálum einstaklinga, en það hryggir mig óneitanlega að heyra að Framsóknarflokkurinn sé ekki hrifinn af þeim breytingum sem voru kynntar af hinni norrænu velferðarstjórn þegar við settum upp þrepaskiptan tekjuskatt (BJJ: Alls ekki.) og lögðum það til að hlífa ætti þeim sem minnstar tekjurnar hafa. Staðreyndin er nefnilega sú og talar sínu máli að síðan núverandi ríkisstjórn tók við borga á milli 60 og 70% launþega í landinu hlutfallslega minni tekjuskatt. Þeir borga minna hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt en þeir gerðu á árunum fyrir hrun. Það eru 85 þús. einstaklingar sem borga minna hlutfall af tekjum sínum í skatt eftir hrun þrátt fyrir að ríkið hafi úr takmörkuðum fjármunum að spila til að aðstoða þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Það vil ég segja vegna þess að það hryggir mig að Framsóknarflokkurinn sem vill kannski vera miðjuflokkur í íslenskum stjórnmálum, gætum að okkar minnsta bróður, (Gripið fram í.) skuli ekki geta tekið undir þetta sjónarmið okkar sósíaldemókrata um að með því að forgangsraða í þágu þeirra sem minnstar tekjurnar hafa getum við hjálpað fólki í gegnum mestu erfiðleikana eins og við höfum gert á árunum eftir hrun.

Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að Framsóknarflokkurinn skuli ekki koma með okkur í þá vegferð að hnika til tekjuskattshlutfalli einstaklinga og aðstoða þá sem minnstar tekjurnar hafa þannig að við tryggjum fólki sem hefur úr takmörkuðum fjármunum að spila hærra hlutfall af tekjum sínum til að standa undir lífsins gagni og nauðsynjum.