140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega ósammála því hvernig hin norræna velferðarstjórn innleiddi skattbreytingar haustið 2009. Það var gert með mjög stuttum fyrirvara og ljóst að mörg mistök voru gerð við breytingar á skattkerfinu þá. Ég vona að hv. þingmaður geti tekið undir með mér í þeim efnum.

Ég var mótfallin því að fara úr staðgreiðslukerfinu yfir í þrepaskiptingu og eftirágreiðslur. Ég tel að það sé óskilvirkara kerfi og snúist í raun og veru ekkert um hægri eða vinstri vegna þess að það var hægt að laga staðgreiðslukerfið og auka jöfnuð eftir því sem menn vildu.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum að tala um sama málið þegar hv. þingmaður Samfylkingarinnar talar um velferð og að standa vörð um þá sem lakast standa í samfélaginu, þegar við horfum upp á að skerða eigi tekjur lífeyrisþega á næsta ári, aldraðra og öryrkja. Er þetta hin norræna velferðarstjórn? Er það hinn mikli jafnaðarmannaflokkur Samfylkingin sem stendur fyrir aðgerðum sem þessum? Að við tölum ekki um hið hróplega misrétti að frysta tiltekna bótaflokka aldraðra og öryrkja — aðallega öryrkja. Þar erum við að tala um mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyri vegna menntunar, uppbætur vegna reksturs bifreiða og bifreiðakaupa og barnalífeyri. Er þetta hin norræna velferðarstjórn?

Í þessu frumvarpi er akkúrat gengið gegn þeim sem lökust kjörin hafa í samfélaginu. Menn geta ekki snúið út úr því. Öryrkjabandalag Íslands ræðst mjög harkalega og með réttu gegn forgangsröðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kennir sig í orði kveðnu við velferð. En vandamálið er að orð eru eitt, en aðgerðir annað.