140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom ekki inn á það sem ég sagði um að villa um fyrir skattgreiðendum, t.d. með launatengdum gjöldum sem eru í vaxandi mæli — ég nefni tryggingagjaldið, ég nefni iðgjald í lífeyrissjóði, ég nefni félagsgjald og alls konar gjöld sem fólk þarf að borga. En varðandi hæstu launin er það þannig, eins og ég gat um, að af þeim launum sem atvinnurekandinn greiðir sér launþeginn ekki nema 37%. Það er sem sagt komið upp undir 63%, nálgast það að vera 2/3, og það náttúrlega leiðir til þess að ef menn ætla að fá fólk til vinnu sem hefur sæmilega menntun og þarf að borga námslán og annað slíkt verða menn að borga því enn meira. Skattkerfið getur leitt til þess að tekjuójöfnuður vex fyrir skatta. Það sem launþeginn hefur áhuga á er náttúrlega hvað hann fær í budduna en ekki hvað hann borgar í skatta.

Mikil skattlagning getur leitt til tekjuójöfnuðar fyrir skatt eða þá að menn hreinlega hætta að mennta sig og hætta að leggja sig fram og hætta að vinna. Það er hinn valkosturinn sem fólk hefur þegar það fær enga umbun fyrir vinnuna sína eða, sem er hin neikvæða hlið, það svíkur undan skatti. Það er mjög slæmt þegar menn búa til siðrof með því að skattleggja of mikið. Ég held að við séum komin upp í þau mörk eða jafnvel yfir þau. Ég held að sú tillaga sem hv. þingmaður leggur hér fram, um nærri 50% skatt plús öll launatengdu gjöldin og plús allt sem menn borga í virðisaukaskatt og annað slíkt þegar þeir eyða peningunum, verði ekki til þess að það verði meiri og skilvirkari framtöl og minni spilling, enda vex spilling á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum skoðunum.