140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð í tilefni af þeirri umræðu sem nú fer fram um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta frumvarp er hluti fjárlaganna eða ríkisfjármálanna fyrir árið 2012. Við afgreiddum fyrir fáum dögum fjárlög fyrir árið 2012 þar sem kemur fram yfirlit yfir tekjur og gjöld ríkisins eins og þau eru ætluð á árinu. Til að ná þeim markmiðum sem fjárlögin gera ráð fyrir hvað varðar tekjur ríkisins þarf að gera nokkrar breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld til að tryggja þær tekjur sem fjárlögin byggjast á.

Nú er það að vísu svo að heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar um 520 milljarðar á árinu 2012 en það frumvarp sem hér er til umfjöllunar varðar aðeins lítinn hluta þeirra. Það má áætla að í heildina snerti þau atriði sem þetta frumvarp tekur á um 7–8 milljarða í tekjur. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, hefur farið hér rækilega yfir nefndarálit meiri hluta nefndarinnar og þær breytingartillögur sem þar eru lagðar fram sem eru allmargar. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem hefur fjallað um þetta mál en hef sem varamaður komið aðeins að umræðum og vinnu við málið og er á nefndarálitinu eins og það er hér birt.

Mig langaði að reifa stuttlega það sem mér finnst mikilvægast að draga fram í sambandi við frumvarpið sjálft. Þar mundi ég fyrst vilja nefna að lagt er til að mörkin á milli fyrsta og annars þreps í tekjuskatti einstaklinga verði færð úr rúmum 209 þús. kr. á mánuði í 230 þúsund. Það er hækkun upp á 9,8% en það er nokkru meiri hækkun en núgildandi lagaákvæði segir fyrir um. Hæsta þrepið tekur hins vegar hækkun um 3,5% og miðþrepið er síðan afleidd stærð af þessum tveimur fjárhæðum sem lægsta og efsta þrepið miða við, þ.e. það er mismunurinn á þeirri tölu sem er fyrir lægsta þrepið, 2.760 þúsund á ári, og hæsta þrepinu, 8.452.400 á ári. Þetta tel ég mjög mikilvæga breytingu. Það er alveg augljóst að hún mun koma sér best fyrir þá sem eru með lægstu tekjurnar og þannig er núverandi ríkisstjórnarmeirihluti enn á ný að sýna að hann skipuleggur og vill skipuleggja skattkerfið með þeim hætti að byrðarnar sem þeir tekjulægstu bera séu sem minnstar og heldur sækja skatta til þeirra sem meira bera úr býtum. Ég tek eftir því að forseti Alþýðusambands Íslands hefur í fjölmiðlum í dag fagnað þessari breytingartillögu alveg sérstaklega.

Síðan vil ég einnig nefna tillögu um að framlengja þann tíma um þrjá mánuði sem menn geta haft til ráðstöfunar til þess að taka út séreignarsparnað. Fresturinn til úttektar á viðbótarlífeyrissparnaði er framlengdur um þrjá mánuði og það má ætla að þessi ráðstöfun þýði auknar tekjur í ríkissjóð um 300 millj. kr.

Í samræmi við þær yfirlýsingar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið varðandi kolefnisgjaldið leggur meiri hlutinn til að leggja til hliðar áform um breikkun skattstofns kolefnisgjalds eins og það var lagt til í frumvarpinu. Eins og kunnugt er komu fram verulegar athugasemdir í umsögnum frá hagsmunaaðilum um þær breytingar.

Það kemur jafnframt fram í nefndarálitinu að það er mat fjármálaráðuneytisins að áhrif þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á tekjuforsendum fjárlaga næsta árs séu óveruleg. Þá er sérstaklega bent á að það gæti orðið verulegt tekjutap til lengri tíma litið fyrir ríkissjóð ef tekið er af auðlegðarskattinum, en tillaga meiri hlutans gengur út á að stytta þann tíma sem auðlegðarskatturinn á að leggjast á til ársins 2014 í stað 2015. Þarna er auðvitað ákveðið samhengi við þær breytingar sem voru gerðar að því er varðar gildistíma gjaldeyrishaftanna.

Ég vil líka segja aðeins örfá orð um efnahagsmálin almennt því að við erum að sjálfsögðu að ræða þau hér í stóru samhengi. Má þá kannski byrja á því að rifja upp hver staðan var varðandi afkomu ríkissjóðs í kjölfar efnahagshrunsins. Ég tel að það hafi náðst gríðarlegur árangur og viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs á mjög skömmum tíma, en viðsnúningurinn sýnir að hallinn á ríkissjóði árið 2012 gæti orðið 20–30 milljarðar eða þar um bil þegar við horfum á það að hallinn fór úr 215 milljörðum þegar mest var. Bara þessi mismunur sýnir svart á hvítu þann gríðarlega viðsnúning í rekstri og afkomu ríkissjóðs sem orðið hefur og fram hjá því verður að sjálfsögðu ekki horft.

Auðvitað heyrum við í umræðunni hér, einkum og sér í lagi frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, að það hefði mátt gera betur í þessu efni en um það má að sjálfsögðu deila. Hinu verður ekki neitað að þessi árangur er gríðarlegur og allir óháðir aðilar sem tjá sig um hann, bæði innlendir og erlendir, hafa bent á það að þessi viðsnúningur sé ekki bara mikill heldur nánast einsdæmi. Hann er um leið forsenda þess að okkur takist að ná jafnvægi í efnahagslífi okkar almennt séð og hann er forsenda þess að við getum haldið hér áfram öflugum og sterkum innviðum í samfélagi okkar, ekki síst í velferðarkerfinu. Ég tel sömuleiðis að nýlega birt þjóðhagsspá frá Hagstofunni styrki stoðir efnahagsstjórnarinnar, styrki þær forsendur sem lagðar eru fyrir efnahagsstjórninni og fjárlögunum. Þar kemur fram að vöxtur landsframleiðslu á árinu 2011 er talinn verða 2,6% og um 2,4% á næsta ári. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi eftir þann mikla samdrátt sem varð í efnahagsstarfseminni, einkum og sér í lagi á árunum 2008 og 2009 þegar verg landsframleiðsla dróst saman um tæplega 10%. Nú hins vegar, tveimur árum síðar, erum við farin að horfa upp á vöxt. Þegar við berum okkur saman við önnur ríki, nágrannaríki í Evrópu, sjáum við að þessi árangur er verulegur.

Það er sem sagt gert ráð fyrir hagvexti, um 2,4%, á næsta ári, aðallega vegna aukningar á einkaneyslu, um 3%, og aukningar í fjárfestingum, um 16,3%, sem er líka ánægjulegt, ekki síst þegar í umræðunni almennt hefur mikið verið talað um skort á fjárfestingu.

Það er líka gert ráð fyrir því að gengi krónunnar hafi styrkst nokkuð núna seinni hluta þessa árs og það hefur dregið úr vexti verðbólgunnar. Hún fór af stað eftir gerð kjarasamninga fyrr á árinu en núna er gert ráð fyrir því að meðaltalsverðlag hækki um 4,1% 2011 og 4,2% árið 2012 en eftir það nálgist hún verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Síðan vil ég nefna aðeins atvinnumálin. Ég held að ekki sé ofsögum sagt að atvinnuleysið sé eitt stærsta viðfangsefnið í stjórn efnahagsmála um þessar mundir. Það er hátt atvinnuleysi hér á landi á íslenskan mælikvarða. Við erum ekki vön því, Íslendingar, að búa við atvinnuleysi af þeirri stærðargráðu sem við höfum glímt við frá hruni en þó er engu að síður svo að í alþjóðlegum samanburði nálgast atvinnuleysi hér á þessum tímum efnahagskreppu víða um lönd ekki þær hæðir sem við sjáum í kringum okkur.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að atvinnuleysi verði um 6,4% á árinu 2012 samkvæmt spá Hagstofunnar. Þetta er sömuleiðis jákvæð þróun sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga.

Ég tel að öll þessi teikn séu merki um að margt jákvætt sé að gerast í okkar efnahagslífi. Í þessari umræðu hafa fallið stór orð um að það sé fullkomin stöðnun í efnahags- og atvinnulífi okkar sem ég tel ekki eiga við rök að styðjast þegar allir mælikvarðar eru skoðaðir. Það er ekki tilviljun að mínu mati að erlend matsfyrirtæki, erlendir sérfræðingar í efnahagsmálum og hagfræði, bæði þeir sem hafa komið hingað og þeir sem hafa skrifað í erlend tímarit og blöð um þessi mál, benda á ótrúlegan árangur í efnahagsmálum Íslendinga á skömmum tíma. Þetta finnst mér mikilvægt að draga fram í þessari umræðu til að það verði ekki eintómt svartnætti sem einkennir hana.

Vissulega er það engu að síður svo að fjölmörg verkefni eru óleyst í hagstjórn okkar og atvinnulífi. Við eigum að sjálfsögðu að snúa bökum saman eins og við frekast getum við að leysa þau viðfangsefni en öll teikn eru á lofti um að við séum að ná okkur á strik, við séum að ná að byggja okkar efnahag og atvinnulíf upp á nýjan leik eftir hið mikla hrun sem hér varð 2008 sem var geysilega mikið og þungt högg fyrir efnahags- og atvinnulífið og fyrir fyrirtækin í landinu, og fyrir fjölskyldurnar í landinu ekki síst.

Þetta vildi ég bara draga fram, herra forseti, í þessari umræðu. Ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir tillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, það hefur formaður nefndarinnar þegar gert, eins og ég gat um, í sinni ítarlegu framsöguræðu. Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að benda á og draga fram að þótt við séum að glíma við mikla erfiðleika, Íslendingar, erum við á ágætri siglingu í sjálfu sér og að minnsta kosti á réttri siglingu. Það frumvarp sem hér er til umræðu er ein af þeim mikilvægu forsendum sem við leggjum undir stjórn ríkisfjármálanna fyrir næsta ár. Það er auðvitað mikilvæg forsenda fyrir því að efnahagsáætlun okkar í heild sinni gangi upp og þess vegna styð ég það eindregið að þetta frumvarp og þær breytingar sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt fram verði samþykkt á þinginu.