140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:30]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, tekjuöflunaraðgerðir tengdar fjárlögunum sem ætlað er að afli ríkissjóði 3,7 milljarða kr. tekna á næsta ári. Hv. formaður nefndarinnar hefur farið vel yfir alla megindrætti í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar og ekki þörf á því að endurtaka það hér í löngu máli. Ég vil þó gera grein fyrir helstu sjónarmiðum mínum um tiltekin atriði frumvarpsins og ekki síður heildarsamhengi ríkisfjármálanna á þessu kjörtímabili.

Stóra myndin sem við okkur blasir er sú að gríðarlegur árangur hefur náðst í að lækka þann mikla fjárlagahalla sem myndaðist við fjármálahrunið haustið 2008 og losaði 216 milljarða kr. Ríkisstjórnin tók til óspilltra málanna við að ná þessum halla niður og í ár stefnir í að hann verði innan við 50 milljarða kr. og í kringum 20 milljarða á næsta ári miðað við nýsamþykkt fjárlög.

Þessi aðhaldsstefna hefur að sjálfsögðu verið sársaukafull. Hún hefur komið við öll helstu svið almannaþjónustunnar, hefur kallað á niðurskurð og skattahækkanir sem þó hafa komið minna við velferðarþjónustuna og menntakerfið en önnur svið ríkisbúskaparins. Hér er gríðarlegur viðsnúningur á ferð og mikið afrek, sársaukafullt vissulega fyrir landsmenn alla. Mikilvægi þess árangurs að ná fjárlagahallanum niður um tæpa 170 milljarða á þremur árum birtist meðal annars í því að ríkissjóður sparar vaxtakostnað sem losar tæplega 17 milljarða á þessu þriggja ára tímabili, samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað í fjármálaráðuneytinu. Ég legg áherslu á þessa tölu: 17 milljarða kr. á þremur árum. Það er sú fjárhæð sem við höfum sparað í vaxtagjöldum með því að ná fjárlagahallanum svo hratt og vel niður. Það er rétt að setja þessa fjárhæð í samhengi, hún er nálægt því að vera sambærileg við öll framlög ríkisins til háskóla í landinu eða öll framlög til framhaldsskóla í landinu á einu ári.

Meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hefur gert ýmsar breytingar á frumvarpinu og þær miða ekki síst að því að styrkja stöðu þeirra sem hafa lægri og meðaltekjur í landinu, hlífa þeim sem minna bera úr býtum en láta breiðu bökin bera byrðarnar. Það er forgangsröðun sem rímar við lífssýn okkar jafnaðarmanna um aukinn jöfnuð í samfélaginu. Það er réttlætismál og sanngirnismál og farsælasta leiðin til að skapa sátt í samfélaginu. Eitt af því sem fór forgörðum hér í stjórnarstefnunni fyrir hrun var einmitt þessi samfélagssátt sem rofnaði í samfélaginu þegar lítill hópur efnaðist fram úr öllu hófi meðan stór hluti almennings sat eftir. Ójöfnuðurinn jókst stórum skrefum á þessum árum og gerði það að verkum að þegar fjármálakerfið hrundi var óréttlætið svo himinhrópandi að neikvæðar afleiðingar hrunsins komu ekki síst niður á óbreyttum almenningi sem hafði ekki notið nema að takmörkuðu leyti ávaxtanna af ofþenslu áranna fyrir hrun.

Meiri hluti nefndarinnar stígur ákveðið skref í þá átt að jafna kjör með því að hækka fjárhæðarmörkin í neðsta skattþrepinu um tæp 10% sem er talsvert umfram hækkun launavísitölu upp á tæplega 8% og ríflega 4 prósentustigum umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Þetta mun skila sér í allt að 40 þús. kr. skattalækkun á ársgrundvelli á komandi ári fyrir venjulegt launafólk í landinu miðað við óbreytt laun og munar þar um minna.

Ég legg einnig áherslu á þá breytingartillögu meiri hlutans að einfalda verulega útfærslu á hinni tímabundnu ráðstöfun um að lækka iðgjöld í séreignarsparnaði úr 4% í 2%. Auðvitað hefði verið betra að þurfa ekki að stíga skref af þessu tagi til að viðhalda sparnaði í landinu en ég verð þó að segja og leggja á það áherslu að við aðstæður eins og núna, þar sem þörf er á sögulega miklu aðhaldi í ríkisbúskapnum, er réttlætanlegt að nota fjármunina frekar til að verja grunnstoðir velferðarkerfisins og halda uppi atvinnustigi gegnum veltu í samfélaginu fremur en að nota þá til að niðurgreiða sparnað í landinu. Þetta er í einhverjum skilningi val á milli tveggja erfiðra kosta en þessi leið sparar ríkinu á annan milljarð króna og það dregur úr niðurskurðarþörfinni á móti.

Breytingartillaga meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rammar þessa ráðstöfun vel inn. Hún dregur verulega úr flækjustigi þessara aðgerða með því að girða fyrir að breyta þurfi þúsundum samninga með tilheyrandi vinnu og fyrirhöfn og það sem mestu máli skiptir dregur breytingartillaga meiri hlutans verulega úr líkunum á varanlegri veikingu þessa sparnaðarforms til framtíðar. Sú hætta er að mínu mati nú hverfandi því að eftir að þessu þriggja ára tímabili lýkur mun núverandi fyrirkomulag taka sjálfkrafa við að nýju sem væntanlega mun tryggja að langflestir þeirra sem nú greiða í séreignarsjóðina muni halda því áfram.

Virðulegi forseti. Eitt merki um batann sem við sjáum í efnahagslífinu um þessar mundir er minnkandi atvinnuleysi sem hefur á kjörtímabilinu lækkað úr 9% í 7%. Það skapar nú forsendur fyrir umtalsverðri lækkun tryggingagjaldsins en lækkun þess samkvæmt frumvarpinu mun skila 8 milljörðum kr. frá ríkissjóði aftur út í atvinnulífið. Það er mikilvæg innspýting sem vonandi skilar sér í aukinni fjárfestingu þegar fram líða stundir. Þar er svo eins og við vitum talsvert verk að vinna enn og mikilvægt að nýta öll skynsamleg tækifæri til atvinnusköpunar sem sameinar það að vera sjálfbær með tilliti til umhverfissjónarmiða og þjóðhagslega arðbær. Rétt er að vekja athygli á aðgerð sem kemur fram í öðru frumvarpi um breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar sömuleiðis þar sem framlengd eru ákvæði sem tengjast átakinu Allir vinna, um endurgreiðslu á vinnu iðnaðarmanna við endurbætur á eigin húsnæði og skattaívilnanir til almennings sem því tengjast.

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu og þá fyrirætlun sem er í þessu frumvarpi um að lífeyrissjóðirnir komi með ákveðnum hætti að fjármögnun þeirra aðgerða. Hér er byggt á samkomulagi sem stjórnvöld, fjármálastofnanir og lífeyrissjóðirnir gerðu í desember sl. með viljayfirlýsingu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, en í þeirri yfirlýsingu var um það fjallað að ríkisstjórnin mundi í samstarfi við fjármálastofnanir og lífeyrissjóði leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármögnuðu nýja tegund tímabundinnar vaxtaniðurgreiðslu eins og það var orðað í samkomulaginu frá 3. desember 2010.

Ég verð að segja það fyrir minn hatt að það sætir mikilli furðu að ekki hafi verið gengið frá útfærslu þessa samkomulags á þeim 12 mánuðum sem liðnir eru og að menn skuli enn vera að þræta og deila um það með hvaða hætti eigi að ganga frá þessu verkefni. Auðvitað hefði verið best að gera það á sínum tíma en það var ekki gert. Ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu sinn hlut af þeirri ábyrgð en lífeyrissjóðirnir gera það líka. Þeir stóðu að þessu samkomulagi og það er ekki stórmannlegt að hlaupa frá því núna þegar komið er að skuldadögum. Samningar eiga að standa og lífeyrissjóðirnir eiga að sjálfsögðu að bera sinn hluta af fjármögnunarkostnaðinum, enda njóta þeir augljóslega góðs af aðgerðum sem laga skuldastöðu heimilanna í formi traustari eignasafna lífeyrissjóðanna.

Hitt er svo annað mál og sjálfsagt að taka undir það sjónarmið aðila vinnumarkaðarins að það er nauðsynlegt að jafna lífeyriskjör hér á landi á milli almennu og opinberu sjóðanna. Við eigum að sameinast um það í þinginu að stíga ákveðin skref á nýju ári til að leiðrétta þann mun sem er á réttindum sjóðfélaga í þessu efni. Það mál er hins vegar viðfangsefni annars frumvarps sem við munum ræða í þinginu síðar í vikunni. Ég geymi því frekari umræðu um það mál til betri tíma.

Ég vil í lokin fara nokkrum orðum um vinnubrögð og skipulag þingstarfa hér í desember, ekki síst samhengið á milli vinnu fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið og vinnu efnahags- og viðskiptanefndar að þessu frumvarpi sem við höfum köllum bandorminn í daglegu tali. Ég tel að það hafi ekki verið góður bragur á skipulaginu í desember og tel að á næsta ári eigum við að skipuleggja vinnuna með þeim hætti að endanleg útfærsla á tekjuhlið fjárlaga liggi fyrir áður en þingmenn greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið þannig að það frumvarp sem kallast ráðstafanir í ríkisfjármálum liggi fyrir og komi til afgreiðslu í þinginu fyrst og fjárlagafrumvarpið síðan í kjölfarið. Að mínu mati var engin þörf á því að keyra fjárlagavinnuna svo skarpt að 3. umr. fjárlaga væri á dagskrá þegar enn lifðu tíu heilir dagar af starfsáætlun þingsins. Ég vona að við náum samstöðu um það í þinginu þvert á flokka að breyta þessu skipulagi þingsins á komandi ári.