140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:56]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara hv. þingmanni því strax sem hann spurði um í sínu fyrra andsvari og áréttaði í því síðara að ég er að sjálfsögðu opinn fyrir því og tel að við eigum alltaf að vera opin fyrir öllum tillögum sem geta skilað betri árangri en koma úr þeim frumvörpum eða þeim þingmálum sem við erum með í höndunum hverju sinni. Ég segi það bara hreint út að ég er að sjálfsögðu tilbúinn að skoða hvort við nefndarmenn getum fundið betri útfærslur en þær sem liggja fyrir okkur varðandi þetta stóra mál um lífeyrissjóðina.

Síðan varðandi hagsmunasamtök öryrkja og ellilífeyrisþega, ég ætla sannarlega ekki að rengja málstað þeirra í einu eða neinu. Ég benti bara á þær staðreyndir að þegar við skoðum heildarmyndina hafa lágmarksbætur til þessara hópa hækkað langt umfram bæði launavísitölu og verðlag.