140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú skýring er komin á nafninu norræna velferðarstjórnin að átt sé við að fólk fari með ferjunni Norrænu í velferðina, eins og ágætlega var farið yfir af ágætum stjórnmálamanni sem hv. stjórnarþingmenn hafa fram til þessa verið, og verða örugglega eitthvað áfram, fullkomlega með á heilanum.

Mesti sparnaðurinn fæst ef okkur tekst að lækka útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs því að það þýðir að fólk er farið að vinna. Við greiðum 20–25 milljarða í atvinnuleysistryggingar og það er ekki gott fyrir neinn.

Hv. þingmaður spyr út í kolefnisskattana og síðustu fundi. Þetta er nú bara þannig að við fundum ótt og títt en vitum aldrei hverju við eigum von á á hverjum fundi fyrir sig. Maður þarf virkilega að hafa sig allan við til að sjá hvort eitthvað sé að renna í gegn. Ég velti því stundum fyrir mér hvort menn komi með þessa gölnu skatta, eins og kolefnisskattana, til þess eins að draga athyglina frá öllu hinu.

Er það virkilega þannig að þeir setjist niður og hugsi hvernig þeir geti komið fram með einhverja hugmynd sem sé nógu galin til að enginn taki eftir öllu hinu? Það fór langmest orka í þennan stóra kolefnisskatt. Við sjáum hér fulltrúa sveitarfélaga, fulltrúa atvinnulífsins, þá aðila sem undirbúa fjárfestingu, sem reyna hvað þeir geta til að koma í veg fyrir stórslys en síðan rennur fram hjá allt milli himins og jarðar sem veldur ekkert minni skaða. Einhvern tímann hefði þótt stórmál að menn hygðust skattleggja lífeyrissjóðakerfið. (Gripið fram í: Jæja.) Einhvern tímann hefði það þótt stórmál, að skerða réttindi ellilífeyrisþega og fólks sem mun taka lífeyri sem flestir gera og vonandi allir Íslendingar. (Gripið fram í: Hvar er Ögmundur?) Já, hvar er hv. þm. Ögmundur Jónasson?

Virðulegi forseti. Þetta hefur bara runnið í gegn, af því að menn hafa áhyggjur af öðrum málum og af nógu er að taka.